Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Getur hvorki kosið sjálfan sig né flokk sinn

24.09.2021 - 11:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhannes Loftsson, formaður Ábyrgrar framtíðar, getur hvorki kosið sjálfan sig né flokk sinn í alþingiskosningunum á morgun þar sem hann býr ekki í Reykjavíkurkjördæmi norður, eina kjördæminu sem flokkurinn býður fram í. Hann gerir því ráð fyrir að skila auðu.

„Við vorum svolítið seinir að byrja meðmælendasöfnunina. Við sáum að Reykjavík norður var að detta inn þannig ég býð mig fram í Reykjavík norður þess vegna,“ segir hann.

Jóhannes segir að ferlið við að bjóða fram hafi reynst tímafrekara en forystufólk flokksins, sem hefur það helst á stefnuskránni að breyta um stefnu í aðgerðum gegn COVID-19, hafi gert ráð fyrir og það hafi haft áhrif á framboðs- og meðmælendalista.

„Þetta er kannski eitthvað sem ný framboð lenda oft í. Menn þekkja ekki alveg hvað þeir eru að fara út í og bara öflugri næst,“ segir hann.

Jóhannes skipar því efsta sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir kosningarnar á morgun þrátt fyrir að búa í Reykjavíkurkjördæmi suður, og raunar einungis nokkra tugi metra frá kjördæminu sem hann býður sig fram í.

Hvernig er tilfinningin að fara af stað með nýtt framboð, vera oddviti og geta ekki kosið flokkinn eða sjálfan sig?
„Maður bara tekur þessu eins og hverju öðru. Maður bjóst alveg við að þetta gæti gerst. Við erum ný og það er margt nýtt sem við erum að gera. Þetta er dálítið sérstakt. Ætli ég verði ekki að mæta á kjörstað upp á sjóið,“ segir Jóhannes.

Og hvað ætlarðu að kjósa?
„Það segi ég engum en líklega mun maður bara skila auðu. Það er ekki mikið val í dag því miður,“ segir hann.