Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þriðjungur vill Katrínu áfram sem forsætisráðherra

23.09.2021 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
36 prósent landsmanna vill hafa Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, áfram sem forsætisráðherra. Þetta sýnir ný skoðanakönnun Maskínu. Katrín hefur mikið forskot á leiðtoga annarra stjórnmálaflokka því næstur í röðinni er Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. 13,3 prósent vilja að hann verði næsti forsætisráðherra. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er vinsælust af leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna.

Einn af hverjum tíu sem tóku þátt í könnun Maskínu sögðust vilja sjá Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, sem næsta forsætisráðherra og 8,8 prósent vildu Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmann Pírata. 

Þórhildur nýtur mestra vinsælda hjá leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna. Um 8 prósent vildu sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, og svipað hlutfall nefndi Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar.

6,7 prósent vildu Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins,  2,1 prósent nefndu Gunnar Smára Egilsson, formann framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, sem þeirra fyrsta valkost og 0,2 prósent Guðmund Franklín Jónsson, formann Frjálslynda lýðræðisaflsins.

Katrín er efst á blaði hjá kjósendum í öllum aldursflokkum í öllum kjördæmum en stuðningur við hana er meiri hjá konum en körlum. 43,3 prósent kvenna vildu hana sem næsta forsætisráðherra en 29 prósent karla. 

Könnunin var gerð dagana 15. til 22. september í svokallaðri Þjóðgátt Maskínu. Svarendur voru 6.072 og bárust  5.805 gild svör. Þátttakendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri.  

Spurt var „Hvern af eftirtöldum leiðtogum stjórnmálaflokka sem nú bjóða fram til Alþingis vilt þú helst að verði forsætisráðherra eftir kosningarnar 25. september næstkomandi?“

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV