Stjórnarflokkarnir mælast með 43 prósent fylgi

23.09.2021 - 07:13
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist aðeins 43 prósent í nýrri könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Framsóknarflokkurinn fær 12,2 prósent, Vinstri græn 10,7 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 20,1 prósent fylgi og tapar rúmu prósenti frá könnun síðustu viku.

Samkvæmt könnuninni er Samfylkingin næststærsti stjórnmálaflokkur landsins með 14,7 prósent fylgi. Píratar mælast með 13,1 prósent samanborið við 11,5 prósent í síðustu viku og þá fær Viðreisn 9,3 prósent.

Níu framboð koma mönnum inn á þing samkvæmt könnuninni. Sósíalistar mælast með 6,9 prósent, Miðflokkurinn 6,6 prósent og Flokkur fólksins 5,2 prósent. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn mælist með 1,1 prósent.

Tæpt er að Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fái þingsæti í Reykjavík norður og gæti hann þurft að treysta á jöfnunarsæti að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Könnunin var framkvæmd dagana 17. til 21. september. 2.500 einstaklingar voru spurðir og 1.244 svöruðu.