Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Saksóknari: Morðið í Rauðagerði vel skipulögð aftaka

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Gígja Gunnarsson - RÚV
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari í Rauðagerðismálinu, sagði morðið á Armando Beqiri um miðjan febrúar hafa verið vel skipulagða aftöku og gaf lítið fyrir játningu Angjelin Sterkaj í málinu. Hann hefði ekki játað fyrr en hann var kominn út í horn þegar lögregla lagði fyrir hann ítarleg gögn í þrettán liðum sem öll bentu til sektar hans. Saksóknari taldi að refsing hans ætti að vera á bilinu 16 til 20 ár og refsingin ætti að vera nær 20 árum.

Munnlegur málflutningur saksóknara og verjenda er lokahnykkurinn á réttarhöldunum sem hófust á fjögurra daga vitnaleiðslum fyrir rúmri viku. Guðjón Marteinsson dómari var mjög harður á því að menn stilltu málflutningi sínum í hóf. 

Fjórir eru ákærðir fyrir að hafa orðið Armando Beqiri að bana en aðeins einn þeirra, Angjelin Sterkaj, hefur játað sök í málinu. Hann krefst þess að honum verði ekki gerð refsing þar sem hann hafi framið morðið í sjálfsvörn.

Hin þrjú sem eru ákærð í málinu, þau Claudia Sofia Carvahlo, Shpetim Qerimi og Selivrada Murat, neita öll sök og segjast ekki hafa vitað hvað Angjelin Sterkaj ætlaði sér að gera í Rauðagerði laugardaginn 13. febrúar.

Kolbrún rakti hvað gerðist í Rauðagerði og sagði að böndin hefðu strax borist að Angjelin, hann hefði meðal annars verið nefndur af félögum og vinum Armando. Hún bað dóminn um að hafa í huga undir hvaða kringumstæðum hann hefði játað, játning hans hefði ekki komið fram fyrr en lögreglan hefði lagt fram ítarleg gögn í þrettán liðum sem öll hefðu bent til sektar hans. 

Kolbrún sagði ýmislegt benda til þess að morðið hefði verið vel skipulagt, andstætt því sem Angjelin hefði sjálfur haldið fram. Hann hefði farið norður í land, skilið þar eftir síma og snjallúr til að ekki væri hægt að rekja ferðir hans. Þá hefði það verið fyrirfram ákveðið að hann færi aftur norður eftir ódæðið og þetta bæri allt vott um mikla skipulagningu.

Hún sagði Angjelin hafa gert miklar ráðstafanir til að geta hitt á Armando einan fyrir utan heimili sitt. Hann hafi farið á staðinn, vopnaður skammbyssu og verið búinn að setja hljóðdeyfinn á hana áður en hann hitti Armando. Gögn úr eftirlitsmyndavélum bendi til þess að atlagan hafi staðið í minna en 57 sekúndur. Kolbrún benti á að Armando hafi legið alveg upp við bílskúrshurðina sem gefi til kynna að hann hafi ekki veist eitthvað sérstaklega að Angjelin, eins og hann hafi fullyrt. Hún sagði Armando hafa verið skotinn níu sinnum og vakti sérstaka athygli á því að hann hefði verið með tvö skotsár á baki.

Kolbrún gaf líka lítið fyrir þær skýringar Angjelin að Armando hefði verið vopnaður. Ekkert vopn hefði fundist á heimili Armando og ekkja hans hefði sagt að eiginmaður hennar hefði ekki átt neitt vopn. Kolbrún sagði því að þarna hefði farið fram hrein aftaka, Angjelin hefði farið í Rauðagerði til að svipta Armando lífi.

Kolbrún sagði liggja fyrir að einhverjar deilur hefðu verið milli tveggja hópa en það hefðu líka komið vitni fyrir dóminn sem hefðu borið um að til hefði staðið að sætta þær deilur. Hún velti því upp hvort það væri rétt að hugsanlega hefði Angjelin viljað koma í veg fyrir að þessi fundur færi fram. Á þeim fundi hefði mögulega komið fram að hann hefði verið að bera sögusagnir í Íslendinginn sem sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Kolbrún sagði að ef Angjelin teldi lífi sínu og sonar síns ógnað hefði hann átt að leita til lögreglu. Ísland væri ekki þannig samfélag að menn gætu bara farið heim til fólks og skotið það níu sinnum ef þeir teldu sér ógnað. 

Kolbrún vék síðan að þætti Claudiu, sem er gefið að sök að hafa verið beðinn um að fylgjast með tveimur bílum í eigu Armando og láta vita ef þeir hreyfðust með skilaboðunum „Hi sexy.“ Kolbrún rifjaði upp fundinn í Borgarnesi og myndskeið úr verslun sem sýndi hvernig þeir Angjelin og Shpetim létu hana hafa snjallúr og farsíma og hvernig hún tók við þeim á fumlausan hátt. Þetta taldi Kolbrún sanna að þeir hefðu verið að ræða eitthvað sem þyldi ekki dagsljósið og Claudia hefði verið meðvituð um það.

Kolbrún vitnaði í lögregluskýrslu yfir Angjelin þar sem hann sagðist hafa beðið Claudiu um að þýða fyrir sig fréttir um morðið í bústaðnum fyrir norðan. „Þarna sá hún að ég hafði drepið hann en ekki lamið hann.“ Og þarna hafi hún vitað að Angjelin hefði framið morð en engu að síður ákveðið að vera með honum áfram.

Kolbrún rifjaði upp hvernig Claudia hefði hegðað sér þegar hún hefði skilað bílaleigubílnum sem notaður var í morðinu. Og spurði ef hún væri svona saklaus af hverju hún hefði þá logið að lögreglu og komið með alls konar bullfrásagnir í skýrslutöku hjá lögreglu.

Kolbrún tók síðan fyrir þátt Murats sem er ákærður fyrir að hafa gefið Claudiu fyrirmælin um að fylgjast með bílum í eigu Armando. Hún sagði óhjákvæmilegt að líta þess hvernig hann hefði borið um atvik hjá lögreglu sem hefði tekið sífelldum breytingum. Hann hefði í raun aðlagað framburð sinn eftir þeim gögnum sem lögreglan hefði lagt fyrir hann. Hann hefði til að mynda á einum tímapunkti ekki sagst kannast við Claudiu en á öðrum tímapunkti hefði hann viðurkennt að hafa kannski hitt hana og látið hana hafa sígarettur. Hann hefði heldur ekki kannast við að hafa talað við Angjelin.

Fyrir dómi hefði þetta síðan allt breyst, þá hefði hann viðurkennt að hafa hitt Angjelin en það sem þeir hefðu rætt hefði verið svo ómerkilegt að það hefði verið óeftirminnilegt. Fyrir svona miklum breytingum á framburði fyrir dómi annars vegar og lögreglu hins vegar þyrftu menn að koma með býsna góðar skýringar. Trúverðugleiki framburðar Murats væri lítill sem enginn. 

Kolbrún sneri sér síðan að Shpetim sem er ákærður fyrir að hafa ekið með Angjelin í Rauðagerði, kvöldið sem Armando var myrtur, og ekið með honum á brott og norður í land. Þeir eru í ákæru meðal annars sagðir hafa stoppað í Kollafirði, við vegginn þar sem á stóð skrifað Flatus lifir, þar sem Angjelin losaði sig við byssuna.

Kolbrún gaf lítið fyrir skýringar hans um að hann hefði ekki áttað sig á því að húsið í Rauðagerði væri heimili Armando. Hún rifjaði upp að það hefði verið almenn vitneskja að Angjelin væri með byssu og geymdi hana í Versace-handtösku sem hann væri alltaf með. Hún vitnaði til skýrslutöku yfir honum hjá lögreglu þar sem Shpetim hefði greint frá því að Angjelin hefði ætlað að koma úr snjósleðaferðinni fyrir norðan „til að klára verkið,“ sem þeir hefðu rætt á fundi þeirra í Borgarnesi daginn fyrir morðið. 

Hún gaf einnig lítið fyrir að Shpetim segðist ekki hafa áttað sig að Angjelin hefði verið vopnaður. Eftir morðið hefði Angjelin lagt byssuna á gólfið fyrir framan sæti sitt í bílnum og það væri ótrúverðugt að Shpetim hefði ekki tekið eftir því. Hún sagði framburð hans hjá lögreglu vera marklausan og öll hegðun hans hefði borið þess merki að hann hefði verið að reyna hylja spor sín.

Kolbrún sagði hafið yfir allan vafa að sakborningarnir fjórir hefðu átt þátt í morðinu og hver og einn haft sínu hlutverki að gegna. „Málið er að Angjelin gerði þetta ekki einn,“ sagði Kolbrún. Hún sagði að horfa þyrfti heildstætt á gögn málsins og hún vísaði til nokkurra dóma, meðal annars dóms Hæstaréttar í máli Annþórs Kristjáns Karlssonar og átta annarra fyrir ofbeldi gegn nokkrum brotaþolum. Kolbrún benti á að þótt Annþór hefði ekki beitt neinu ofbeldi í umrætt sinn hefði hann hlotið dóm sem aðalmaður í ofbeldinu. Og í þessu máli hefðu allir sakborningarnir vitað að Angjelin hefði farið vopnaður í Rauðagerði.

Kolbrún sagði brot sakborninganna vera það alvarlegasta í íslenskri löggjöf og játning Angjelins hefði lítið vægi. Refsing fyrir manndráp væri yfirleitt 16 ár og stundum hefðu dómstólar farið neðar ef einhverjar sérstakar aðstæður væru hendi. Angjelin ætti að fá þyngri dóm þar sem þetta hefði verið skipulögð aftaka. Dómurinn yfir honum ætti að vera á bilinu 18 til 20 ár og horfði Kolbrún þar til máls Thomasar Möller Olsen sem var dæmdur fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur. Aðrir sakborningar ættu ekki að fá vægari refsingu en fimm ára fangelsi. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV