Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Neysla á risarækjum stórskaðar umhverfið

23.09.2021 - 14:45
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
Stefán Gíslason ræddi um umhverfisskaðann af risarækjueldi. Hann er verulegur og eyðileggur einstök vistkerfi. Stefán segir eina ráðið til að sporna við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur sé að hætta að kaupa og borða risarækjur.

Stefán Gíslason flytur pistilinn:

 

Umhverfisáhrif risarækjueldis

Risarækjur eða tígrisrækjur njóta talsverðra vinsælda meðal matlystugra Íslendinga og sjást m.a. í Sushi, í ýmsum sjávarréttum á veitingastöðum og í hillum og frystiborðum verslana. Sjálfsagt er þetta gómsæt og próteinrík fæða, en skuggahliðarnar eru svo dimmar að líklega er óhætt að ráðleggja fólki að hætta að leggja sér þessa vöru til munns, frá og með morgundeginum.

Risarækjur eru ekki veiddar á Íslandsmiðum, á Flæmska hattinum, í Smugunni eða í Barentshafi, heldur eru þær ræktaðar á suðlægari slóðum, aðallega í Suðaustur-Asíu og í Suður-Ameríku. Sporið sem rækjueldið skilur eftir sig í náttúrunni og samfélaginu er svo stórt, að á síðasta vetri sáu Sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen ástæðu til að hleypa af stokkunum sérstöku sniðgönguátaki undir yfirskriftinni „skippa scampi“, með venjulegum fyrirvara um sænskan framburð.

Augljósasti umhverfisskaðinn af risarækjueldi liggur í því að eldið fer fram á strandfenjasvæðum, eða í mangroves eins og þessi svæði eru nefnd í alþjóðlegri umræðu. Reyndar er réttara að segja að eldið fari fram á fyrrverandi strandfenjasvæðum, því að lífríkinu sem þar þrífst er rutt í burtu til að rýma fyrir eldiskerjunum. Eldið hefur farið mjög hratt vaxandi, einkum í löndum á borð við Bangladesh, Taíland, Víetnam, Indland, Kína og Ekvador, svo mjög að strandfenin hafa verið rudd á stórum svæðum og í staðinn er komið nýtt landslag með rækjueldiskerjum svo langt sem augað eygir.

Strandfenin eru ekkert venjulegt vistkerfi. Þar þrífst gríðarlega flókið lífkerfi sem nýtir sér þessi mót sjávar og ferskvatns. Þarna vax leiru- og fenjaviðarskógar í grunnu hálfsöltu vatni og inn á milli plantnanna þrífst gríðarlega fjölbreytt samfélag af fiskum, rækjum, krabbadýrum og ýmsum smærri dýrum. Fenin eru í senn hrygningarstöðvar þessara lífvera, uppeldisstöðvar og matarbúr. Og lífríkið sem þrífst á þessum svæðum er líka undirstaða lífríkisins í hafinu fyrir utan og á landi, í árósum og á votlendi nálægt ströndinni. Allt þetta víkur fyrir risarækjueldinu.

Kolefnislosun og arðrán

Til viðbótar því sem hér hefur verið talið hefur röskun strandfenjanna í för með sér gríðarlega losun kolefnis út í andrúmsloftið. Það flókna kerfi sem lagt er í rúst með risarækjueldinu samanstendur nefnilega ekki bara af einstaklega fjölbreyttu lífríki, heldur er leðjan á botninum kolefnisbanki sem safnað hefur innstæðu í þúsundir ára. Sem dæmi um mikilvægi strandfenjanna hvað þetta varðar, er talið að strandfenin bindi um það bil fjórfalt meira kolefni en jafnstór regnskógur á landi. Þetta kolefni losnar út í andrúmsloftið sem koldíoxíð þegar fenjunum er rótað upp í þágu rækjueldisins.

Nú kann einhverjum að detta í hug að risarækjueldið sé undirstaðan í atvinnu og lífsafkomu fólksins á viðkomandi svæðum, og að þess vegna sé tæplega verjandi að forríkir Vesturlanda-búar fúlsi við góðgætinu og skilji fólkið þarna úti eftir í sárri neyð. En þannig er þetta bara alls ekki. Þvert á móti hefur risarækjueldið átt stóran þátt í að ræna þetta fólk lífsviðurværinu. Fólkið á þessum svæðum lifir nefnilega öðru fremur af því að veiða fisk og safna skeldýrum, eða lifði öllu heldur af því áður en fótunum var kippt undan tilveru þess. Fiskarnir og skeldýrin hverfa og fólkið getur ekki heldur sótt sér byggingarefni og eldivið í fenin, né nýtt sér lækningamátt plantnanna sem þar uxu. Algengt er að fólk hrökklist frá heimilum sínum á þessum svæðum og mótmæli þess eru ekki vel séð af stórfyrirtækjunum sem reka rækjueldið.

Kannski halda sumir að risarækjueldi sé nauðsynlegur hluti af því að afla mannkyninu fæðu, þar sem ofveiði í heimshöfunum er sístækkandi vandamál. En sú er heldur ekki raunin. Þvert á móti eykur rækjueldið á ofveiðina, því að fóðrið í eldinu er einmitt að stórum hluta sótt í sjávarfang sem annars hefði e.t.v. nýst til manneldis. Fiskur sem áður var ódýr uppspretta próteins fyrir fólkið á þessum svæðum er nú stappaður í fóður fyrir rækjurnar. Og í þokkabót er mikið af þessum rækjufóðursfiski veiddur í troll, sem gera engan greinarmun á stórum og smáum fiski. Það er sem sagt ekki nóg með að eldið eyðileggi fæðuuppsprettu lífríkisins í hafinu fyrir utan, heldur er það lífríki sem eftir stendur líka „ryksugað upp“ í þágu eldisins.

Og enn meira...

Nú kann einhverjum að finnast að nóg sé komið, en enn er sagan ekki öll sögð. Strandfenin hafa til að mynda veitt mikilvæga vistkerfisþjónustu sem felst í flóðavörnum. Hafaldan deyr nefnilega út í fenjunum, en þegar búið er að skipta þeim út fyrir rækjueldisker eru varnirnar horfnar með tilheyrandi strandrofi. Sömuleiðis eiga tsunami-bylgjur greiða leið upp á land þar sem engin eru strandfenin.

Til viðbótar öllu því sem hér hefur verið nefnt, þá fylgir rækjueldinu mikil efnamengun. Í þessu eldi er nefnilega notuð sýklalyf og önnur tilbúin efni til að fyrirbyggja sjúkdóma í eldinu, þar sem rækjurnar eru jú aldar í miklu meiri þéttleika en þeim er eðlislægt. Sömuleiðis eru sterk hreinsiefni notuð til að hreinsa eldiskerin og verja þau fyrir „óæskilegum“ dýrum og plöntum. Þessi efni berast svo óhjákvæmilega í vatnsvegi, brunna og út í sjó. Eftir nokkurra ára notkun getur svo þurft að afleggja eldissvæðin og flytja þau á nýjan stað, eða þá að minnka þéttleikann til að geta notað svæðin lengur. Það útheimtir náttúrulega að ný svæði séu tekin undir eldi til að halda framleiðslunni stöðugri.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvað sé til ráða. Oftast byrja svör við slíkum spurningum á orðunum „að draga úr“, „að kaupa minna af“ eða „að borða minna af“. Hvað risarækjurnar varðar er svarið miklu einfaldara: Hættum að kaupa risarækjur, hættum að borða þær og notum þau tækifæri sem gefast til að útskýra ástæðuna fyrir öðru fólki, þ.á m. fólki sem vinnur í verslunum og á veitingastöðum sem bjóða upp á þessa fæðu. Með því móti leggjum við okkar af mörkum til að koma í veg fyrir að enn stærri hluti af strandfenjum heimsins verði lögð undir risarækjueldi með tilheyrandi skaða fyrir lífríkið, samfélagið og afkomu fólks í fjarlægum heimshlutum.

 

thorhildurg's picture
Þórhildur Guðrún Ólafsdóttir
dagskrárritstjórn