Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lítil stemning fyrir hauskúpum og aftökum

Mynd: Dagur Gunnarsson / RÚV

Lítil stemning fyrir hauskúpum og aftökum

23.09.2021 - 08:50

Höfundar

Ritdómar eru ekki enn dauðir úr öllum æðum þó vægi þeirra hafi dregist saman í íslenskum blöðum, segir Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, en bókmenntaumræða og umfjöllun hefur breyst mjög á síðustu árum og orðið mýkri.

Auður Aðalsteinsdóttir sendi nýlega frá sér mikið rit, byggt á doktorsritgerð sinni um sögu og eðli bókmenntagagnrýni á Íslandi. Verkið heitir Þvílíkar ófreskjur en með þeim orðum lýsti Jónas Hallgrímsson köflum úr Tristransrímum Sigurðar Breiðfjörð í grein í Fjölni sem oft er talin fyrsti íslenski ritdómurinn. Gagnrýnendur sjálfir hafa þó oft orðið að ófreskjum í hugum lesenda og kannski ekki síður höfunda.

Fjöldi og vægi ritdóma hefur breyst mikið síðustu ár. Þeim hefur fækkað í prentuðum fjölmiðlum og þeir eru einnig styttri. Breytingarnar hafa haldist í hendur við langvarandi krísu dagblaða segir Auður í samtali við Þröst Helgason í Svona er þetta á Rás 1. Tími ritdóma, eins og við þekkjum þá frá blómaskeiði þeirra á 20. öldinni er mögulega liðinn. Umfjöllun um bækur hefur fikrað sig yfir á vef- og samskiptamiðla og þar er umræðan öðruvísi en tíðkast hefur á prenti.

„Maður myndi kannski ekki vilja segja að ritdómar væru dauðir,“ segir Auður þó. „Alla 20. öldina var talað um að gagnrýni væri ekki svipur hjá sjón, hún væri í kreppu og ritdómarar væru ekki nógu harðir. Þetta eru stef sem hafa gengið í langan tíma.“

Hins vegar hafi gagnrýni farið í annan farveg vegna mikilla breytinga undanfarinna ára. „Umfjöllun um bókmenntir og gagnrýnin umræða, hún heldur áfram, en hún hlýtur að verða á öðrum nótum. Ritdómar eins og við þekkjum þá frá 20. öldinni, þessir stóru ritdómar í blöðunum, það er kannski ástæðan fyrir því að þeir skreppa saman og þeim fækkar, eins og þeir séu smám saman að deyja út í blöðunum, virðist vera.“

Markaðsvæðing fjölmiðla síðustu áratugi hefur haft mikil áhrif á eðli og virkni ritdóma. „Eftir að fjölmiðlarnir verða markaðsvæddari og hætta að vera flokksbundnir þá fer hvatinn frá því að vera með gagnrýna umræðu yfir í það sem er markaðsvænt,“ segir Auður. „Auðvitað var það metið þannig að hörð gagnrýni, stjörnur og hauskúpur væru markaðsvænar, en þá fer greiningin frekar yfir í akademísku ritin eða fræðilegu ritin. Núna er kannski ekki beint stemning heldur fyrir hauskúpum og aftökum í blöðunum lengur. Það eru færri og færri gagnrýnendur til í að taka þennan slag. Þetta getur náttúrulega verið erfitt hlutverk.“

Ísland er fámennissamfélag og bókmenntaheimurinn eftir því lítill, sem hefur mikil áhrif á það hvernig dómar eru skrifaðir og hvernig samræðan fer fram. „Þá komum við inn á vald ritdómarans,“ segir Auður. „Ég var frá upphafi að spá í þetta vald ritdómarans og hvernig hann getur tekið þetta vald til þess að dæma og síðan viðbrögðin sem hann fær. Þú þarft alltaf að vera með samfélagslegt samþykki, að þú hafir leyfi eða sért eitthvað yfirvald í þessum efnum. Þeir sem hafa tekið það að sér að vera harðir gera það í trausti þess að fólk muni samþykkja þá af einhverjum ástæðum, þeir hafi menntun eða færni eða einhvers konar átorítet til þess að dæma.“

Valdið til að gagnrýna bækur hefur alltaf verið óöruggt, segir Auður, en með tilkomu samfélagsmiðla, með hröðum og miklum samskiptum, veikist það enn frekar. „Þá eru kannski færri sem taka þetta að sér. Það eru enn þá gagnrýnendur sem eru þekktir fyrir að vera harðir, en það er eins og þeim fari fækkandi og það verði minni og minni eftirspurn eftir því.“

Þröstur Helgason ræddi við Auði Aðalsteinsdóttur í Svona er þetta á Rás 1.