Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Haukar unnu fyrsta Evrópuleikinn í næstum 15 ár

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Haukar unnu fyrsta Evrópuleikinn í næstum 15 ár

23.09.2021 - 21:27
Kvennalið Hauka í körfubolta tók á móti portúgalska liðinu Uniao Sportiva í kvöld á Ásvöllum í fyrstu umferð Evrópubikarsins. Þetta var í fyrsta sinn í næstum fimmtán ár sem íslenskt kvennalið tekur þátt í Evrópukeppni.  

Haukar urðu bikarmeistarar síðustu helgi. Helena Sverrisdóttir gekk aftur til liðs við félagið eftir síðasta tímabil en hún spilaði líka með Haukum síðast þegar liðið tók þátt í Evrópukeppni, 2004 og 2005. Þá voru sumir liðsfélaganna hennar í dag ekki fæddir.  

Haukakonur fóru vel af stað í kvöld og komust í 10-1. Mikið var um villur í fyrsta leikhluta en staðan að honum loknum 20-18 fyrir Hauka.  

Í upphafi annars leikhluta náðu gestirnir forystunni en Haukar náðu kröftum sínum á ný, jöfnuðu og voru stigi yfir í leikhléi, 40-39. 

Þegar stutt var eftir af þriðja leikhluta var staðan jöfn, 54-54, og allt í járnum. Haukakonur náðu þá fimm stiga forystu og virtust ætla með hana inn í lokafjórðunginn þegar þær fengu á sig óheppilega þriggja stiga körfu í þann mund sem leiktíminn rann út og staðan þá 59-57 fyrir Hauka.  

Haukakonur fóru vel af stað í fjórða leikhluta en aftur kom sveifla, gestirnir jöfnuðu 68-68, og Bjarni Magnússon þjálfari Hauka tók leikhléi. Helena fékk fimmtu villuna sína eftir um 38 mínútna leik og þar með útilokuð úr leiknum. Staðan þá var 77-70, Haukum í vil.  

Svo fór að Haukar unnu með fimm stigum, 81-76, og því í fínum málum fyrir seinni leikinn sem verður spilaður á Asoreyjum eftir slétta viku.