Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fram, FH og KA unnu í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Fram, FH og KA unnu í kvöld

23.09.2021 - 21:13
Þrír leikir voru spilaðir í annarri umferð úrvalsdeildar karla í handbolta í kvöld. FH tók á móti Gróttu, Víkingur sótti KA heim og Fram og Selfoss mættust í Safamýri.

Framarar áttu frábæran fyrri hálfleik. Vilhelm Poulsen skoraði fimm mörk í hálfleiknum og staðan að honum loknum 15-10 fyrir Fram. Selfyssingar sem eru að glíma við töluverð meiðsli spiluðu tvo leiki gegn tékkneska liðinu Koprivnice ytra um helgina og tryggðu sig áfram í aðra umferð Evrópukeppninnar.  

Fram spilaði áfram vel í síðari hálfleik og gestunum gekk illa að minnka muninn. Ísaki Gústafssyni tókst þó að minnka hann niður í tvö mörk og hleypa spennu í lokakaflann.  

Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir var munurinn hins vegar aftur orðinn fimm mörk og Framarar fóru með sigur af hólmi, 29-23. Annan leikinn í röð skoraði Poulsen tíu mörk fyrir Fram. Ragnar Jóhannsson, Einar Sverrisson og Hergeir Grímsson skoruðu sex hver fyrir Selfoss. 

Fyrir norðan vann KA fimm marka sigur á nýliðum Víkings, 23-18. Patrekur Stefánsson skoraði sjö mörk fyrir heimamenn. Gísli Jörgen Gíslason var atkvæðamestur Víkinga með fjögur.  

Í Kaplakrika hafði FH betur gegn Gróttu með þremur mörkum, 25-22. Egill Magnússon, Ásbjörn Friðriksson, Ágúst Birgisson og Jakob Martin Ásgeirsson skoruðu fjögur mörk hver fyrir Hafnarfjarðarliðið og Lúðvík Arnkelsson skoraði fimm fyrir Gróttu.