Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

ESB: Eitt hleðslutæki fyrir alla snjallsíma

23.09.2021 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: pexels
Evrópusambandið hyggst tryggja að eitt hleðslutæki virki fyrir alla snjallsíma. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti í dag að þannig mætti lágmarka raftækjasóun.

Símaframleiðandinn Apple hefur mótmælt breytingunum og segir hættu á að þær stöðvi nýsköpun í raftækjaframleiðslu og auki mengun.

AFP fréttastofan hefur það eftir varaforseta framkvæmdastjórnar ESB að neytendur í Evrópu séu orðnir langþreyttir á því að gömul og ónothæf hleðslutæki safnist upp á heimilum. Sambandið hafi gefið framleiðendum nægan tíma til að finna lausn á vandanum en nú þurfi að bregðast við með lagasetningu. Tilskipanir ESB gilda fyrir allt evrópska efnahagssvæðið, og Ísland er þar á meðal. 

Evrópusambandið stefnir að því að gefa framleiðendum tveggja ára frest til þess að bregðast við tilskipuninni. Apple-fyrirtækið hefur lýst yfir áhyggjum af aðlögunartímanum og sagst óttast að neytendur veigri sér við að kaupa raftæki vegna fyrirhugaðra breytinga. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV