Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Blómaheildsala ákærð fyrir smygl á rósum og blómvöndum

23.09.2021 - 19:04
Nærmynd af blómvendi brúðar.
 Mynd: thea nielsen - Freeimages
Héraðssaksóknari hefur ákært forsvarsmenn blómaheildsölu fyrir smygl á afskornum rósum og blönduðum blómvöndum sem meðal annars innihéldu rósir í fjórum sendingum á árunum 2016 til 2018. Farga þurfti smyglvarningnum í síðustu sendingunni vegna heilbrigðissjónarmiða.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun næsta mánaðar. 

Í henni er fólkinu gefið að sök að hafa í fjórum sendingum á árunum 2016 til 2018 veitt tollyfirvöldum rangar eða villandi upplýsingar um tegundir og magn blóma sem flutt voru hverju sinni frá Hollandi. Þetta eru þau sögð hafa gert með því að tilgreina ranglega eða vanrækja að tilgreina tollskrárnúmer og magntölur á aðflutningsskýrslum. 

Eigandinn er sagður hafa fengið hollenskan seljanda og útflytjanda til að gefa út sölureikninga til heildsölunnar sem saksóknari telur að hafi verið efnislega rangir og ekki í samræmi við raunverulegt innihald vörusendinganna.

Fram kemur í ákærunni að háttsemi fólksins hafi fyrst og fremst lotið að smygli á afskornum rósum og blönduðum blómvöndum, sem meðal annars innihéldu rósir.

Í ákærunni er síðan farið yfir sendingarnar fjórar sem ákært er fyrir.

Í júní fyrir fimm árum flutti fyrirtækið til að mynda inn 38 kassa af blómum.  Athugun tollvarða leiddi í ljós ósamræmi milli annars vegar raunverulegs innihalds sendingarinnar og hins vegar tilgreinds innihalds og tollflokkunar hennar. 

21 kassi reyndist þannig vera með afskornar rósir í stað annarra tilgreindra blómategunda, í fjórtán kössum reyndust vera blandaðir blómvendir með afskornum rósum og í þremur kössum voru önnur blóm eða meira af blómum en tilgreint var.

Sami háttur var hafður á í hinum sendingunum þremur.  Fram kemur í ákærunni að heildsölunni hafi í öll skiptin verið gefin kostur á að senda endurgerða og leiðrétta tollskýrslu miðað við raunverulegt innihald hennar.  Það hafi eigandinn gert og  allar sendingarnar  verið tollafgreiddar á grundvelli hinnar leiðréttu aðflutningsskýrslu nema sú síðasta. Þar hafi hinum smyglaða varningi verið fargað vegna heilbrigðissjónarmiða.

Í ákærunni kemur fram að með háttsemi sinni hafi fólkið dregið sér samanlagt aðflutningsgjöld upp á rúmar 5,7 milljónir undan álagningu aðflutningsgjalda í sendingunum fjórum. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV