Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Biðtími lengst og starfsfólk mjög þreytt vegna álags

23.09.2021 - 09:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Biðtími á Læknavaktinni hefur verið lengri að meðaltali í sumar og haust en áður. Gunnlaugur Sigurjónsson, stjórnarformaður Læknavaktarinnar, segir í skriflegu svari til fréttastofu að eftitt sé að manna vaktir og að mikil þreyta sé komin í starfsfólkið. Þá hafi stjórnvöld gengið fram hjá Læknavaktinni þegar heilbrigðisstarfsfólki var umbunað fyrir framlag sitt í faraldrinum.

„Læknavaktin er í erfiðleikum með mönnun, og vaxandi erfiðleikar síðustu ár sem Sjúkratryggingar Íslands hafa verið upplýstar um á fundi. Covid-faraldur setti gríðarlegt álag á Læknavaktina, sérlega hvað varðar vitjanir, um tíma þurfti að þrefalda mannskap í þá þjónustu. Varnarklæði og sótthreinsun setti aukið álag á starfsfólk og mikil þreyta komin í mannskapinn,“ segir Gunnlaugur um stöðu Læknavaktarinnar.

Hann segir að á sama tíma hafi verkefni heilsugæslunnar verið aukin. „Þó fjárframlög hafi verið aukin í heilsugæsluna heilt yfir þá hefur það farið í sérverkefni og ekki skilað sér í rekstur heilsugæslustöðvanna. Aukning fjármagns um síðustu áramót dugði hvergi nærri fyrir umsömdum launahækkunum starfsfólks. Þannig má segja að það hafi orðið raunniðurskurður í rekstri heilsugæslustöðvanna,“ segir Gunnlaugur.

„Það þýðir að læknar heilsugæslunnar eru undir meira álagi en áður, margir upplifa langa vinnudaga, líka kvöld og helgar til að klára verkefni dagsins. Það minnkar enn fremur getu þeirra til að sinna vaktþjónustu,“ segir hann.

Þá segir hann aðgerðir stjórnvalda hvað Læknavaktina varðar ekki hvetjandi. „Stjórnvöld gengu fram hjá Læknavaktinni í umbun starfsfólks fyrir framlög í covid-faraldri þó smithætta og álag hafi hvergi verið meira, ef gjörgæsla og smitsjúkdómadeild Landspítalans eru undanskilin,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir að vegna stöðunnar hafi ekki alltaf verið hægt að fullmanna vaktir, ekki hafi fengist afleysingar þegar forföll eru og því hafi biðtími lengst. „Þetta hefur gerst endurtekið síðastliðna mánuði,“ segir Gunnlaugur. Hann segir meðalbiðtíma ekki liggja fyrir. Hann sé mjög breytilegur og hafi mest náð rúmum þremur klukkustundum.

„Læknavaktin hefur, sem viðbrögð við þessu ástandi, unnið markvisst að því að fá sérnámslækna í heimilislækningum inn á Læknavaktina til að sinna vöktum. Við höfum náð nokkum árangri þar. Heimilislæknar eru því miður takmörkuð auðlind og þessi mál eru því ekki auðleyst,“ segir Gunnlaugur.