Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Angjelin hafi gengið langt í að sverta orðspor Armando

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Réttargæslumaður fjölskyldu Armando Beqiri sagði Angjelin Sterkaj hafa gengið mjög langt í að sverta orðspor Armando Beqiri sem gæti ekki borið hönd fyrir höfði sér. Hann tók undir með saksóknara um að morðið í Rauðagerði hefði í raun verið vel skipulögð aftaka þar sem ekkja Armando hefði verið svipt sínum lífsförunaut.

Fjölskylda Armando Beqiri krefur sakborningana fjóra um nærri 70 milljónir og réttargæslumaðurinn sagði morðið á Armando hörmulegan atburð og vitnaði til orða saksóknara um að það hefði verið vel skipulögð aftaka. 

Hann sagði ekkju Armando hafa verið svipt sínum lífsförunaut og föður barna þeirra. Þau hefðu verið nýbúinn að kaupa húsið í Rauðagerði, átt ungan dreng og hún borið annað barn þeirra undir belti. Hún stæði eftir með tvö föðurlaus börn og fasteign sem yrði ætíð kennd við morðið á eiginmanni hennar. Tilverunni hefði verið kippt undan fótum hennar. 

Hún hefði upplifað mikinn kvíða eftir morðið og til að auka enn frekar á miska hennar hefði hún verið ein sú fyrsta til að koma á vettvang morðsins. Brotið hefði verið framið fyrir utan sameiginlegt heimili hennar og Armando og örfáum metrum frá hefði sonur þeirra sofið. Hún þyrfti að ganga daglega um vettvang morðsins. 

Hann sagði Angjelin hafa gengið mjög langt í að sverta orðspor Armando sem gæti ekki borið hönd fyrir höfði sér, hann hefði verið sakaður um fíkniefnasölu og grófar ofbeldishótanir. Þetta væri til þess fallið að auka enn frekar á miska ekkju Armando.

Hann sagði morðið hafa sömuleiðis valdið móður Armando miklum sársauka sem ætti erfitt með að trúa þessum sonarmissi. Samband þeirra hefði verið mjög náið þótt þau hefðu búið sitt í hvoru landinu og hún fylgst með uppvexti barnabarns síns hér á landi gegnum samfélagsmiðla.

Réttargæslumaðurinn rakti líka bótakröfu föður Armando og sagði stöðu hans þá sömu. Faðirinn hefði upplifað mikla sorg og vanlíðan og hefði átt erfitt með svefn. Verulega þungbært væri hverju foreldri að missa barn sitt á svo hræðilegan hátt.

Hann fór líka yfir bótakröfu sonar Armando, áhrif árásarinnar væru mikil því hann hefði eingöngu verið 16 mánaða þegar faðir hans var myrtur. Hann hefði verið gerður föðurlaus og sviptur því tækifæri og grundvallaréttindum að alast upp með föður sínum. Morðið myndi hafa djúpstæð áhrif á allt hans líf.

Ekkja Armando gerir líka þá kröfu að sakborningunum verði gert að greiða dóttur þeirra miskabætur sem var ekki fædd þegar faðir hennar var myrtur. Líkt og bróðir hennar fengi hún ekki að kynnast föður sínum og alast upp með honum. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV