
Saied hefur stýrt landinu einn síns liðs frá því hann rak forssætisráðherrann Hichem Mechichi í júlí ásamt ríkisstjórn hans. Hann tók sér þá jafnframt neyðarvöld á meðan. Hann fullyrti þá að aðgerðirnar væru í þágu þjóðaröryggis og innan ramma stjórnarskrár Túnis.
Nú virðist hann hafa fengið nóg af þeim ramma, því hann ætlar nú sjálfur að velja ráðherra ríkisins og reka eigin stefnu, en virða stjórnarskrána að vettugi. Í yfirlýsingu forsetaembættisins segir að nefndin sem sér um að athuga hvort lagadrög samræmist stjórnarskrá sé nú aflögð. Forsetinn ætlar sjálfur að leggja fram drög að pólitískum umbótum með aðstoð nefndar sem skipuð verður samkvæmt forsetatilskipun, hefur Deutsche Welle eftir honum.
Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins hafnar valdatafli forsetans alfarið. Leiðtogi flokksins sagði aðgerðir Saieds geta leitt til sundrungar í ríkinu. Osama al-Khalifi, leiðtogi annars stjórnarandstöðuflokks, sakaði Saeid um valdarán og kallaði eftir samstöðu þjóðarinnar gegn því.