Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vonast til að fólk hugleiði fjölbreyttari valkosti

22.09.2021 - 16:26
Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - Rúv
Bíllausi dagurinn er haldinn víða um heim í dag. Akureyrarbær hefur af því tilefni breytt nokkrum bílastæðum göngugötunnar í grænt svæði en engu að síður má aka götuna eins og flesta aðra daga.

Hvatning til að hvíla bílinn

Jón Þór Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Akureyrarbæjar segir bíllausa daginn vera eins konar lokahnykk á samgönguviku sem staðið hefur síðastliðna viku. 

„Þá hvetjum við sérstaklega íbúa Akureyrar og reyndar alla aðra til þess að hvíla bílinn og nota aðra samgöngumáta, t.d. að hjóla, ganga, rafhlaupahjóla eða hvað sem hentar,“ segir Jón Þór.

Lítill almenningsgarður í stað bílastæða

Aðspurður að því hvað Akureyrarbær er að gera sérstaklega í tilefni dagsins segir Jón Þór að í göngugötunni sé búið að útbúa lítinn nokkurs konar almenningsgarð. Þar hefur gervigras, með hjólastandi og bekkjum og fleiru, verið sett í staðinn fyrir bílastæði sem eru þar venjulega.

Jón Þór telur að átakið skili fyrst og fremst því að fólk hugleiði þá fjölbreyttu valkosti sem í boði eru.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Þorbjörg Jónasdóttir - Rúv
Bílaumferð er um göngugötuna líkt og flesta aðra daga

Göngugatan full af bílum

Eins og aðra daga er stanslaus straumur bíla í göngugötunni á Akureyri. Það skýtur kannski eilítið skökku við í tilefni dagsins.

„Það er þannig með göngugötuna að hún er lokuð ákveðna daga og tímabil á ári í samræmi við samþykkt þar um. Við erum alltaf að læra og læra betur að lifa þessum umhverfisvæna samgöngulífstíl. Það vill þannig til að bæjarstjórn er búin að ákveða að endurskoða þessa samþykkt um lokun göngugötunnar. Eigum við ekki að segja og vonast til þess að hún verði alla vega lokuð á næsta ári,“ segir Jón Þór.