Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Verðum að bretta upp ermar og endurbyggja kirkjuna

22.09.2021 - 09:46
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Bjarnason - RÚV
„Margir eiga góðar minningar úr kirkjunni og það er óskaplega sorglegt að hún skuli vera horfin. Fólk er með tárin í augunum.

„Það var ljóst alveg frá upphafi að engu var hægt að bjarga. Við vorum þarna fram eftir nóttu að drepa í glæðum. Á klukkutíma var ekkert eftir nema bara rétt grunnurinn,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs í Grímsey.

Þegar hringt var í hann stundarfjórðungi fyrir 11 í gærkvöldi var hann að horfa á sjónvarpið.  „Ég hringdi í neyðarlínuna og lét vita. Það var ekki við neitt ráðið. Við lögðum áherslu á að verja Miðgarða sem er hús sunnan við kirkjuna. Kirkjan varð alelda á augabragði.“

En hvað með búnaðinn sem þið hafið er hann nógu góður til að glíma við verkefni eins og þetta?  „Nei hann er alltof lítill. Við erum með  slökkvibíl sem er orðinn mjög gamall og lélegur. En hann gerir samt gagn en okkur vantar betri bíl, það er engin launung á því. Hann hefði ekki komið að neinu gagni við þessar aðstæður. Ég held að allir hafi gert sér grein fyrir því sem voru á staðnum að engu var hægt að bjarga.“

Jóhannes er ekki með tölu á hve margir eru í Grímsey núna en giskar á að þeir séu á mili 30 og 40. Það hjálpar ekki að viðhalda byggð í eynni að missa kirkjuna?  „Nei, þetta er bara hræðilegt og ég held að menn verði að bretta upp ermar og endurbyggja kirkjuna,“ segir Jóhannes Henningsson.