Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Um þúsund kjósendur komast líklega ekki á kjörstað

22.09.2021 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Líklegt er að um eitt þúsund kjósendur verði í sóttkví eða einangrun á kjördag og megi því ekki mæta á hefðbundinn kjörstað. Opnaður hefur verið sérstakur upplýsingavefur fyrir þann hóp þar sem finna má leiðbeiningar um atkvæðagreiðsluna og hvar hægt sé að kjósa.

 

Sett á sérstök reglugerð

Þar sem kjósendur í sóttkví eða einangrun mega ekki greiða atkvæði á almennum kjörstöðum hefur verið sett sérstök reglugerð í samráði við sóttvarnaryfirvöld. Kjósendur í sóttkví og einangrun mega koma akandi á einkabíl á sérstakan kjörstað. Opnunar- og lokunartími hvers kjörstaðar er mismunandi eftir umdæmum en hægt er að nálgast upplýsingar varðandi sóttkvíar- og einangrunaratkvæðagreiðslu á island.is/covidkosning2021.

 

Sérstakur kjörstaður vegna hópsmits

Á Reyðarfirði var ákveðið, eftir hópsmitin um helgina, að setja upp sérstakan kjörstað fyrir fólk í sóttkví og einangrun sem verður opinn á morgun. Lárus Bjarnason sýslumaður á Austurlandi segir ómögulegt að segja hversu margir munu nýta sér aðstöðuna. Ekki var unnt að fljúga með sýni í gær til greiningar vegna veðurs en niðurstöður ættu að liggja fyrir seinnipartinn í dag.

„Það eru 22 í einangrun og 206 sem eru í sóttkví. En það losnar væntanlega eitthvað um þá sem eru í sóttkví og þessi kosning er náttúrulega bara ætluð fyrir þá sem verða annað hvort í einangrun eða sóttkví á kjördag. Það getur helst úr þessari lest. Segjum að sóttkvíin detti að mestu út og það eru 22 þarna og segjum að það séu helmingurinn af þeim að kjósa, þá er þetta ekkert mál en ef að þetta eru hins vegar allur þessi fjöldi þá er það náttúrulega stórmál,“ segir Lárus.

Fleiri hafa kosið utan kjörfundar.

Rúmlega 450 atkvæði hafa verið greidd utan kjörfundar í umdæmi sýslumanns Austurlands sem er talsvert meira en í fyrri alþingiskosningum. Atkvæðin verða send á kjördag til yfirkjörstjórnar á Akureyri til talningar.

Að sögn Svavars Pálssonar, sýslumanns á Norðurlandi eystra, er kjörsókn þar með allra besta móti, en um 2500 hafa þegar greitt atkvæði utan kjörfundar og fer sú tala ört hækkandi. Auk starfsstöðva embættisins á Húsavík, Siglufirði, Dalvík og Þórshöfn er hægt að kjósa hjá sérstökum kjörstjórum sýslumanns vítt og breitt í umdæminu. Á Akureyri fer utankjörfundaratkvæðagreiðsla fram á Glerártorgi.

Á Norðurlandi eystra er hægt að kjósa í svokallaðri bílakosningu á Húsavík frá deginum í dag og á Akureyri verður hægt að kjósa á fimmtudag, föstudag og á kjördag sjálfan.