Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þjóðkirkjan styður við endurbyggingu verði það ákveðið

22.09.2021 - 11:20
Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands í Kastljósi
 Mynd: Fréttir
Biskup Íslands segir bruna Miðgarðakirkju í Grímsey sorglegan. Yfirstjórn kirkjunnar muni styðja söfnuðinn eins og kostur sé, verði ákveðið að endurbyggja kirkjuna. Hjörleifur Stefánsson arkitekt segir hverja friðaða kirkju á Íslandi einstaka. Miðgarðakirkja hafi verið ein þeirra.

 

Agnes M. Sigurðardóttir biskup kveðst sorgmædd vegna brunans í Grímsey. „Vegna þess að kirkjan er náttúrlega sameiningartákn eyjunnar. Þetta er gamalt hús og margar kynslóðir hafa átt þarna stundir, bæði í gleði og sorg, sameinast bæði í gleðinni og sorginni og komið þarna saman þannig að þetta er gífurlegt áfall fyrir íbúana og sóknarbörnin þarna.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: Henning Henningsson

 

Þarna hafi menningarverðmæti orðið eldinum að bráð. „Þetta eru mikil menningarverðmæti sem að fara þarna á 20 mínútum eða svo.“

Elsta hús Grímseyjar

Hjörleifur Stefánsson arkitekt segir menningarmissinn mikinn við bruna Miðgarðakirkju. Kirkjan hafi verið elsta hús eyjarinnar. Hús frá þessum tíma og af þessum toga hafi bæði menningarlegt, táknrænt og tilfinningalegt gildi. Og í raun hluti af líminu í byggð eins og í Grímsey.

„Allar þessar kirkjur sem við eigum, þessar friðuðu kirkjur frá fyrri tíð, hver um sig er einstök. Það eru engar tvær eins og að því leytinu til eru þær allar einstakar. Sá sem byggði þessa kirkju hét Árni Hallgrímsson frá Garðsá. Þetta er einstakt hús einfaldlega.“

Biskup segir það ákvörðun safnaðarins í eynni að ákveða hvort Miðgarðakirkja verður endurbyggð eður ei. 

„Auðvitað er það þannig að við sem stýrum kirkjunni núna, við munum bara styðja þau í þeirra ákvörðun varðandi það en mér finnst nú bara líklegt að sóknarbörnin vilji hafa kirkju í eyjunni og byggja upp kirkju aftur og þá munum við styðja þau í því eins og við getum.“