Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Með íslenskt fyrirtæki í gíslingu og vilja lausnargjald

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV grafík / Ragnar Visage
Rússneskir tölvuþrjótar hafa tekið allt tölvukerfi hátæknifyrirtækis í Garðabæ í gíslingu og krefjast tuga milljóna í lausnargjald. Verði það ekki greitt í dag tvöfaldast upphæðin. Eigandi fyrirtæksins segir ekki koma til greina að borga.

Brotist var inn í tölvukerfi fyrirtækisins Geislatækni klukkan hálf þrjú aðfaranótt föstudags, en fyrirtækið sérhæfir sig í að skera og beygja stál með með leysigeisla og hátækniaðferðum og vinnur fyrir ýmis hátæknifyrirtæki. Þetta er gert í tölvustýrðum vélum.

Þegar starfsmenn komu til vinnu á föstudagsmorgun var búið að dulkóða allar skrár fyrirtækisins og þar með ekki hægt að komast í þær. Ekki hefur því verið hægt að nota framleiðsluvélarnar, komast í bókhaldskerfið eða nokkuð það sem er í tölvukerfi fyrirtækisins og vinna liggur því niðri. Þeir sem þarna voru að verki hafa haft samband, segir Grétar Jónsson framkvæmdastjóri Geislatækni.

„Já, það er bara að borga og eftir daginn í dag þá tvöfaldast þessi upphæð.“
Hvað fara þeir fram á?
„Þeir fara fram á 200 þúsund dollara.“
Og 400 þúsund dollara á morgun?
„Já, eftir daginn í dag.“
Ætlið þið að borga?
„Nei, það er alveg hreint mál.“

200 þúsund dollarar eru um 26 milljónir króna og á morgun hljóðar því krafan upp á 52 milljónir króna. Grétar segir að fyrstu viðbrögð hafi verið að hafa samband við lögregluna.

„Í framhaldi af því kom aðili frá Europol og tekið afrit af servernum og svo eru sérfræðingar í því að reyna að koma okkur á lappirnar aftur.“
Er vitað hverjir þetta eru?
„Já, þetta eru þekktir aðilar frá Rússlandi.“

Hann segir stóra viðskiptavini fyrirtækisins hafa sýnt þeim skilning. Grétar telur líklegast að tölvuþrjótarnir hafi sent tölvupóst á fjölda netþjóna víða um heim og að þeir hafi komist inn í kerfið eftir að, til dæmis, tölvupóstur hafi verið opnaður. Grétar taldi að varnirnar í fyrirtækinu væru góðar, en tölvukerfið er rekið af sérfræðifyrirtæki. Hann segir að framan af hafi hann talið litlar líkur á að endurheimta gögnin, en bjartsýni hans hafi aukist. Ekki sé búið að stela þeim heldur læsa og þeim í raun haldið í gíslingu.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV