Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lýsa yfir endalokum kórónukreppunnar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fjöldi ferðamanna fer aftur yfir milljón á næsta ári samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka. Aðalhagfræðingur bankans segir að allt bendi til þess að kórónuveirukreppunni sé lokið.

Yfirskrift þjóðhagsspár Íslandsbanka er flugtak eftir faraldur. Það felur í sér að kreppan sem kórónuveiran olli sé að baki og framundan sé nýtt vaxtarskeið. Jón Bjarki Bentsson er aðalhagfræðingur Íslandsbanka. „Allir mælikvarðar benda til þess að kreppan sé afstaðin að mestu og við höfum farið betur út úr henni heldur en ýmsir óttuðust fyrir ári eða svo.“

Ferðamenn yfir milljón

Bankinn spáir því að hagvöxtur verði 4,2 prósent í ár, 3,6 prósent á næsta ári og þrjú prósent árið 2023. Ferðamenn taka að streyma til landsins á ný, þeir verða 600 þúsund í ár og vel yfir milljón á næsta ári, 1,3 milljónir nánar tiltekið. Gert er ráð fyrir að núverandi takmarkanir á landamærunum gildi út árið og að einhverjar takmarkanir verði fyrir óbólusetta fram á mitt næsta ár.

Ferðamenn keyra áfram útflutningsvöxt en einnig eru góðar horfur í loðnu, eldisfiski, áli og hugverkum.

Verðbólgan verður áfram illviðráðanleg og verður við 2,5 prósenta markmið Seðlabankans seint á næsta ári. Stýrivextir halda áfram að hækka. Þeir eru nú 1,25 prósent en munu hækka í skrefum og verða komnir upp í 3,5 prósent eftir tvö ár. Þá verður atvinnuleysi komið á sama stað og það var fyrir faraldurinn árið 2023.

Kosningum fylgir óvissa

Ekki er minnst á áhrif alþingiskosninga í spánni. Jón Bjarki segir að vissulega fylgi kosningum alltaf óvissa en farin hafi verið sú leið að styðjast við fyrirliggjandi gögn, það er fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Þar er gert ráð fyrir stigvaxandi aðhaldi þegar líður frá kreppu. „Nú ef slakinn verður meiri þurfa vextir væntanlega að vera hærri eins og seðlabankastjóri hefur boðað en að öðru leyti tökum við svo sem ekki afstöðu til þess hvernig haldið verður á spöðunum.“

Magnús Geir Eyjólfsson