Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hver er arfleið Angelu Merkel?

Angela Merkel, kanslari Þýskalands. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Fjórir hafa gegnt embætti forseta Frakklands í valdatíð Angelu Merkel, fráfarandi Þýskalandskanslara, og fimm hafa setið í embætti forsætisráðherra Bretlands. Sumum þykir valdatíð Merkel mikilægt skref í jafnréttisbaráttu kvenna en öðrum þykir kanslarinn ekki hafa gert nóg til að uppræta kynjamisrétti.

Í fyrsta skipti í 16 ár verður nafn Angelu Merkel ekki á kjörseðlinum þegar Þjóðverjar ganga til þingkosninga næstkomandi sunnudag. Eðlisfræðingurinn og prestsdóttirin Angela Merkel varð kanslari Þýskalands í nóvember 2005. 

Hér má lesa og hlusta á umfjöllun um Angelu Merkel í fréttaskýringaþættinum Heimskviður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/RÚV

Í stjórnartíð Merkel hafa fjórir gegnt embætti forseta Frakklands, þeir Jaques Chirac, Nikolas Sarkozy, Francois Hollande og Emmanuel Macron. 

Fimm hafa á tímabilinu verið forsætisráðherrar Bretlands, þau Tony Blair, Gordon Brown, David Cameron, Theresa May og Boris Johnson. 

Og Merkel á nú samskipti við sinn fjórða Bandaríkjaforseta. George W. Bush var forseti þegar hún varð kanslari. Á eftir honum komu Barack Obama, Donald Trump og nú Joe Biden.

Þau eru svo sjö sem hafa gegnt embætti forsætisráðherra Íslands í stjórnartíð Angelu Merkel. Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde, Jóhanna Sigurðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir. 

Geta strákar ekki orðið kanslarar?

Margar þýskar konur segja valdatíð hennar hafa verið sér fyrirmynd. Það ku vera skrítla í Þýskalandi að ungir drengir hafi oft velt fyrir sér hvort karlar geti nokkurn tímann orðið kanslarar. 

„Ég var í skóla þegar ég byrjaði að hafa áhuga á pólitík og ég gerði mér strax grein fyrir hvað það var þýðingarmikið að það væri kona sem stýrði Þýskalandi. Það fyllti mig stolti,“ segir hin 24 ára Leoine Pouw, aðspurð um arfleið Merkel. 

Hér má hlýða á þátt Veru Illugadóttur um Angelu Merkel Í ljósi sögunnar.

Önnur hafa gagnrýnt hversu lítið Merkel hafi látið sig jafnréttismál varða. Hún hafi til að mynda verið treg til að styðja kynjakvóta og ekki viljað kalla sig femínista, ja, fyrr en nýlega, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

„Tölurnar bera árangri hennar ekkert sérlega fagurt vitni. Á þessum sextán árum sem hún hefur verið kanslari hefur konum fækkað í ríkisstjórn Þýskalands. Konurnar í þingflokki hennar hafa sömuleiðis ekki verið færri en nú. Það segir okkur að enn sé mikið verk að vinna,“ segir stjórnmálaskýrandinn Julia Reuschenbach.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV