Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Evergrande semur við lánardrottna

22.09.2021 - 04:47
Efnahagsmál · Erlent · Asía · Evergrande · Kína
epa09479381 A sign at Evergrande city plaza in Beijing, China, 21 September 2021. Evergrande Group is China’s real estate conglomerate and the world’s most indebted property developer. Stock markets in Asia, the USA, and Europe were hit by a major sell-off on 20 September since the company’s shares closed 10 percent lower in Hong Kong. The Evergrande Group announced its concern in a stock filing this month that the group might not be able to meet its financial obligations.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínverski fasteignarisinn Evergrande greindi frá því í morgun að náðst hafi samkomulag við innlenda kröfuhafa. Samkomulagið ætti að duga til þess að fyrirtækið falli ekki á tíma með að greiða vexti af einu lána sinna. Fjárhagsvandi Evergrande hefur valdið miklum skjálfta á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, og valdið hruni á gengi hlutabréfa. Fari fyrirtækið í þrot gæti það orðið til mikils vansa fyrir kínverskan efnahag. 

AFP fréttastofan hefur eftir tilkynningu Evergrande til kauphallarinnar í Kína að samið hafi verið um greiðslu vaxta á skuldabréfi. Bloomberg fréttastofunni reiknast svo til að greiðslan neimi um 232 milljónum yuana, jafnvirði um 4,7 milljörðum króna. Í tilkynningunni segir að þeir sem hafi keypt skuldabréf fyrir daginn í dag eigi rétt á að fá vexti greidda á réttum tíma. 

Evergrande er með rekstur í rúmlega 280 borgum um gervallt Kína. Um 200 þúsund manns vinna hjá fyrirtækinu, og kveðst það ábyrgt fyrir nærri fjórum milljónum afleiddra starfa. Evergrande hefur fjárfest verulega undanfarinn rúman áratug, en viðurkenndi nýverið að eiga í talsverðum vanda. Skuldir fyrirtækisins nema jafnvirði 300 milljarða bandaríkjadala.