Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Einstök altaristafla glataðist í brunanum

22.09.2021 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Bjarnason - RÚV
Einstök altaristafla sem Arngrímur Gíslason málaði árið 1879 var meðal gripa sem glötuðust þegar Miðgarðakirkja í Grímsey brann til grunna í nótt. Sædís Gunnarsdóttir, minjavörður Norðurlands eystra, segir kirkjuna eiga sér mikla sögu og að mikill missir sé af munum sem voru í henni.

„Það er náttúrulega alltaf hræðilega sorglegt þegar gamlar timburkirkjur brenna. Þetta er altjón og ekkert eftir af kirkjunni þannig að það er mikill missir bæði fyrir minjar á landinu og svo auðvitað íbúa Grímseyjar,“ segir Sædís. Hægt er að skoða þá muni sem þarna glötuðust á vefnum ismus.is

Miðgarðar eru nyrsti kirkjustaður á Íslandi en Jón Ögmundsson biskup vígði kirkju þar snemma á elleftu öld. Miðgarðakirkja var byggð árið 1867 úr rekaviði. Kirkjan stóð þá nær Miðgarðabænum en var færð um lengd sína árið 1932 vegna eldhættu og um leið var byggður við hana kór og forkirkja með turni. Endurbætur voru gerðar á kirkjunni árið 1956 og þá var hún endurvígð. Hún var síðan friðuð í byrjun árs 1990.

Sædís segir að margir merkilegir gripir hafi verið í kirkjunni. „Sérstaklega athyglisverðir eru altaristafla eftir Arngrím málara, prédikunarstóll sem var úr eldri kirkju þannig að við vitum ekki hvað hann var gamall og einnig voru klukkurnar mjög gamlar. Svo eru líka alls konar gripir í kirkjunni sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir íbúana þannig að þetta er mikill missir,“ segir hún.

Altaristöfluna málaði Arngrímur Gíslason árið 1879 eftir frægri veggmynd Leonardo da Vinci frá lokum 15. aldar af síðustu kvöldmáltíðinni, sem prýðir enn matsal klausturkirkju heilagrar Maríu náðarinnar í Mílanó á Ítalíu. Í bókinni Kirkjur Íslands kemur fram að málverkið hafi verið í veglegum mahónímáluðum ramma og verið skreytt gylltum listum og hnúðum. Á stalli yfir töflunni var líkneski af Kristi á markarakrossi. Í bókinni kemur fram að kirkjan hafi keypt altaristöfluna af Arngrími fyrir 120 krónur.

Kirkjuklukkurnar tvær voru úr kopar. Sú minni var með mikilli áletrun og skrauti og var steypt í Kaupmannahöfn árið 1799. Sú stærri var frá 1862. Klukkurnar voru fengnar frá Siglufjarðarkirkju fyrir miðja tuttugustu öld.

Í bókinni kemur einnig fram að Einar Einarsson listamaður, sem var um sex ára skeið djákni í Grímsey, hafi sett mikinn svip á kirkjuna í þau fjórtán ár sem hann bjó í eynni. Hann var sóknarnefndarformaður um tíma og hafði umsjón með endurbótunum á kirkjunni árið 1956. Þá skar hann út skírnarfont og söngtöflur og skurðmynd á prédikunarstólinn og aðra kirkjuhurðina.

Aðspurð hvort huga þurfi betur að varðveislu gamalla timburkirkna segir Sædís það vera vandmeðfarið. „Þetta er mjög vandmeðfarið því það er erfitt að eiga við þetta. Minjastofnun og Mannvirkjastofnun hafa gert minnisblað um brunavarnir í gömlum, friðuðum kirkjum og það er aðgengilegt á heimasíðum stofnananna. Svo er til áætlun um björgun gripa við bruna sem er líka aðgengilegt á heimasíðu Minjastofnunar en í mörgum tilfellum er ekki hægt að gera neitt þegar bruninn uppgötvast,“ segir hún.