„Ég held ég sé rosalega klár, en er það ekki“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég held ég sé rosalega klár, en er það ekki“

22.09.2021 - 13:50

Höfundar

Trommuleikarinn Birgir Jónsson er forstjóri flugfélagsins Play sem hóf sig til flugs í júní. Þó hann leiki ekki lengur á trommur með hljómsveitinni Dimmu mun hann ekki hætta að berja húðirnar þegar færi gefst. „Síðan ég var pínulítill var ég að lemja með sleifum á potta og stóla, svo mamma og pabbi urðu að láta mig fá trommusett,“ segir hann í aðalviðtali Með okkar augum í kvöld.

Birgir Jónsson trommuleikari er forstjóri nýstofnaða flugfélagsins Play. Hann hafði áður vakið mikla athygli fyrir trommuleik sinn með Dimmu en eftir að hann lagði kjuðana á hilluna árið 2018 tók hann við stjórn Íslandspósts. Birgir lýsir sjálfum sér sem stórskrýtnum, í viðtali við Katrínu Guðrúnu Tryggvadóttur í þættinum Með okkar augum í kvöld. En hvað er skrýtnast við hann? „Ég held ég sé alveg rosalega klár, en er það ekki,“ svara hann kíminn.

Lykillinn að vel heppnuðum rekstri segir hann vera að vinna með fólki sem er klárara en maður sjálfur, „og búa til réttu liðsheildina, rétta liðið, réttu hljómsveitina,“ segir hann. Trommuleikurinn fylgir honum þó enn, og hefur gert frá blautu barnsbeini. „Síðan ég var pínulítill var ég að lemja með sleifum á potta og stóla svo mamma og pabbi urðu að láta mig fá trommusett, ég eyðilagði öll húsgögnin.“

Þegar hann er spurður hvort rétt sé að hann hafi lagt af, síðan hann barði húðirnar með Dimmu, viðurkennir hann að svo sé. „Ég hætti að borða allar pizzurnar sem voru ókeypis þegar maður er í hljómsveit. Svo fær maður oft mikinn bjór,“ rifjar hann upp. „Ef maður hættir að spila um allt land allar helgar þá fer maður að borða hollt.“

Með okkar augum er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 20:40.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Lykillinn að hafa gott fólk og Tólfuna með sér í liði

Tónlist

Bríet forðast fólk sem brýtur hana niður