„Ég fæddist sextug og yngist með hverju árinu“

Mynd: Gassi / Gassi

„Ég fæddist sextug og yngist með hverju árinu“

22.09.2021 - 09:30

Höfundar

Fríða Ísberg er alin upp að mestu leyti hjá föður sínum. Á heimilinu spiluðu feðginin tónlist sem hefur fylgt henni í gegnum tíðina. Sem unglingur dansaði hún við poppið með vinkonum sínum en fór svo heim og setti klassískt rokk á fóninn með pabba. Fríða sendir í haust frá sér sína fyrstu skáldsögu sem nefnist Merking.

Fríða Ísberg rithöfundur kveðst hafa fæðst sextug í anda, að minnsta kosti miðað við smekk sinn á tónlist sem byrjaði að mótast snemma. Hún er að senda frá sér sína fjórðu bók en fyrstu skáldsögu í haust, sem nefnist Merking. Fríða kíkti í Lagalistann á Rás 2 og sagði frá rithöfundardraumnum sem rættist, sínum eftirlætislögum, og þeirri tónlist sem mest áhrif hefur haft á hana. „Ég á erfitt með að velja mér eitthvað uppáhalds og er ekki með sérstaklega gott minni. Minnið og ímyndunaraflið eru á sama stað í heilanum svo þetta er svolítill skáldskapur líka,“ segir hún um lagavalið. „Ég fæddist sextug og yngist með hverju árinu.“

Varð stjörnulostin þegar KK kom í heimsókn

Fríða er alin upp hjá föður sínum, Jóhanni Ísberg, að miklu leyti. Á heimili föður síns kynntist hún tónlist KK sem var í miklu uppáhaldi hjá henni. KK og faðir hennar urðu ágætisfélagar þegar sá síðarnefndi vann að plötuumslagi fyrir tónlistarmanninn. Þá var skrýtið fyrir Fríðu þegar hann fór að venja komur sínar á heimilið. „Ég á minningu um að KK er í kaffi hjá pabba og mér finnst hann vera bara frægasti maður í heimi,“ segir Fríða. Hún vildi gjarnan fá eiginhandaráritun hjá honum en þorði ekki að biðja um fyrir sig sjálfa. „Svo ég bað um eitt fyrir Höllu vinkonu mína og eitt til einskis sérstaks, og það var hengt upp á vegg,“ rifjar hún upp og hlær.

Hlustaði á klassíska tónlist ein en popp með vinkonum sínum

Það var mikil tónlist á heimili Fríðu og föður hennar. Hann vann heima sem sjálfstætt starfandi ljósmyndari og á meðan hann var í stúdíóinu sat Fríða gjarnan hjá honum við borðtölvu og lék sér í tölvuleikjum. Þá var hlustað á plötur og tónarnir umkringja föður hennar enn. „Á meðan pabbi vinnur, enn í dag, hann fær lag á heilann og spilar það aftur og aftur.“

Sjálf hlustaði hún á klassíska tónlist sem barn, mikið pabbarokk. Með vinkonunum var sungið og dansað með poppstjörnum, en raunverulegum tónlistarsmekk sínum deildi hún ekki með þeim. „Þetta var ekki beint í leyni, en þær svöruðu þessu ekkert. „Ég átti ekkert margar vinkonur í grunnskóla svo sem, við vorum þrjár,“ segir hún.

En heima hlustaði hún á The Band og gerir reyndar enn. Eitt eftirlætis lag hennar með þeim er lagið Ophelia, sem hún lýsir sjálf sem plebbalegu og blúsuðu miðað við hljómsveitina. „En ég bara elska það svo mikið. Þetta er lagið sem ég hlusta á þegar ég er á malarvegi á íslenskum slóðum og mér líður eins og guðirnir vaki yfir mér.“

Tók af sér skikkjuna og fór að veita aðgengi að sér eftir hann missti son sinn

Líkt og margir Íslendingar er Fríða aðdáandi Nicks Cave, þó hún segi að aðdáunin sé ekki jafn sterk og á Tom Waits og Bob Dylan sem hafa fylgt henni ár eftir ár í langan tíma. Hún fór á tónleikana sem Nick hélt í Hörpu í tengslum við Red Hand Files, þar sem hann gaf íslenskum aðdáendum tækifæri til að eiga við sig opið samtal og spyrja spjörunum úr. Þetta er hluti af samtali sem hefur staðið yfir í nokkurn tíma.

Á tveggja mánaða fresti sendir hann út fréttabréf þar sem hann svarar enn fleiri spurningum og hver sem er getur tjáð sig. „Hann er svo gjafmildur á sína lífssýn og reynslu, og sitt líf. Það er svo sjaldgæft að sjá svona töffara, sem hafa í raun verið að vinna algjörlega með fjarlægðina. Kúlið er fjarlægt. Í henni vex ídolíseringin svo mikið, þú finnur að þú hefur ekki aðgang að manneskjunni og þannig verður hún svo guðleg. Og allir þessir listamenn, Bob Dylan, Tom Waits og Nick Cave hafa verið að vinna aktíft með þetta kúl.“

Þegar Nick Cave missti son sinn, sem lést af slysförum á unglingsaldri, segir Fríða að hann hafi ákveðið að taka skikkjuna af sér og veita aðgengi að sér. „Þar af leiðandi er hann að stíga af stallinum, gefa okkur nánd og afsala sér ákveðinni ídolíseringu með þessu. Gjafmildi á vald, hann er að afsala sér valdi sem hann hefur en að sama skapi er hann að valdefla sjálfan sig og fær allt öðruvísi virðingu.“

„Við gleymum stundum að klappa okkur eins og kisum“

Þegar Fríða er spurð hvaða listamann hún myndi mest vilja sjá á tónleikum nefnir hún bresku folk-söngkonuna Lauru Marling. „Mig langaði að finna núlifandi listamann sem er að túra. Hún er enn aktív og mig langaði geðveikt að sjá hana,“ segir Fríða.

Plata hennar Semper Femina, sem Fríða hefur fallið fyrir, er um konur og lagið sem Fríða valdi til spilunar Always this way, er óður til barnsins í konunni. „Að vera villtur, ekki þessi pússaða kona,“ segir hún. „Alltaf þegar maður fær samviskubit yfir að segja eitthvað, eða gera eitthvað rangt, þá er það vegna þess að við erum ekki að fylgja samfélagslegum reglum.“

Það þurfi ekki alltaf að taka upp svipuna þó maður stígi út fyrir rammann og brjóti reglurnar. „Við erum dýr og villt, og við erum bara. Það er svo fyndið hvað við erum búin að stilla okkur upp í þröngum kössum í hegðun. Þessar ósögðu félagslegu reglur. Við gleymum stundum að klappa okkur eins og kisum. Við erum bara dýr og það er eitthvað villt í okkur. Við verðum að leyfa okkur að anda, ekki skamma okkur svona rosalega mikið.“

Djammaði og var skotin í manninum sínum í heimspeki

Eftir að hafa klára Menntaskólann við Hamrahlíð skráði Fríða sig í heimspeki í Háskóla Íslands. Hún byrjaði í náminu aðeins átján ára og útskrifaðist tuttugu og eins árs. Skruddurnar voru ekki aðalfókusinn á þessum tíma. „Ég var mest að djamma og vera skotin í manninum mínu, sofandi í tímum. Ég hefði átt að vera í Berlín að fullorðnast en valdi heimspekina,“ segir hún. Hún var ekki viss hvað hana langaði að læra, en hún vissi hvað hún vildi verða, hún ætlaði að vera sjálfstætt starfandi eins og faðir hennar og rithöfundur lá beint við. „Ég vissi að ég ætlaði að verða rithöfundur en fannst það vera lógískt fyrir rithöfunda að fara í heimspekina. En þegar ég byrjaði fór ég í rökfræði í texta á ensku og hafði ímyndað mér eitthvað skemmtilegra. En svo lærði maður inn á þetta kerfi og þá varð það skemmtilegra.“

Samdi sögur í kringum persónur í Harry Potter

Aðeins sex eða sjö ára byrjaði hún að skrifa ljóð og kvæði og fljótlega litlar sögur um smádýr eins og finkur og hamstra. „Svo uxu sögurnar samhliða bókunum sem maður las, maður var alltaf að spegla þær. Maður var farinn að rissa upp sinn fan fiction þegar Harry Potter kom út,“ segir hún kímin. Fríða las bækurnar upp til agna og skrifaði sína eigin útgáfu af sögum um uppáhalds persónurnar. „Ég skrifaði smásögu um Skrögg Illaauga, ástarsögu hans og McGonagall,“ nefnir hún sem dæmi.

Rosalega mikið af drykkfelldum rithöfundum elska Tom Waits

Þegar hún er að lokum spurð hvaða lag hún vildi að hljómaði í jarðarför hennar nefnir hún Tom Waits, sem er sem fyrr segir í miklu uppáhaldi hjá henni. „Þetta er agalegt því það er svo mikil steraótýpa, það er rosalega mikið af drykkfelldum rithöfundum sem elska Tom Waits. Sama steríótýpa og datt í Bukowski og beat-skáldin, en líka bara okkar stærstu rithöfundar komnir vel í viskíið að kalla eftir Tom Waits hvort sem er á píanóið eða í danspartíinu. Maður er bara: Þú spilar ekki Tom Waits í danspartí.“

En þó það sé klisjulegt að elska Tom Waits segist hún gangast við því. „Að lokum þarf maður að sætta sig við klisjuna, gangast við því og láta jarða sig við klisjuna sem maður er. Ég held að þessi tilvistarþraut, að sættast við það sem maður er, það verður að endurspeglast líka í valinu á jarðarfaralögunum.“

Var eins og hauslaus hæna áður en hún skilaði handriti

Skáldasagan Merking kemur út 12. október en Fríða hefur unnið í henni í þrjú ár. Fyrir fjórum mánuðum sendi hún hana frá sér í umbrot og prent, og fram að því segist hún hafa verið afar upptrekkt í einhvern tíma. „Það er alltaf þá sem ég er eins og hauslaus hæna, vinnsluminnið er á fullu og ég er að grípa fram í fyrir fólki. Sóna út í samtölum því ég er að hugsa um hvar einhver komma á að vera í setningum,“ segir hún. „Mér líður ekki vel á þessum tímapunkti heldur smá stjórnlausri. En núna er það gróið og ég er spennt að geta talað um þess bók. Bók framkallast ekki fyrr en hún kemur út, viðtökurnar skapa samtalið.“

Hún segir að erfitt sé að segja til um það um hvað bók í raun fjallar þar til aðrir hafi lesið hana. „Ég er kannski búin að búa til fimmtíu prósentin en hinn helmingurinn er lesandinn og hvað hann sér. Og það er það sem hefur gerst fyrir allar mínar bækur, maður finnur fyrir ákveðnu æðruleysi. Maður skaffar hráefnið en svo er samtalið eftir,“ segir hún. „Það er það sem er skemmtilegast við flóðið. Það er leiðinlegast að selja sig og hafa áhyggjur af sölu, en skemmtilegasti parturinn er þetta samtal.“

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Fríðu Ísberg í Lagalistanum á Rás 2. Hér er hægt að hlýða á þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hluti af mér vill vera töffari í leðurjakka

Bókmenntir

Tæknin myndar flekaskil milli kynslóða