Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Brann til grunna á 20 mínútum

22.09.2021 - 08:16
Mynd: Sigurður Henningsson / RÚV
Svavar Gylfason slökkviliðsstjóri í Grimsey segir að kirkjan hafi orðið alelda á skömmum tíma. Þegar slökkviliðið kom á vettvang var mestur eldur í turninum en rafmagnstaflan er þar undir.

„Aðkoman var ömurleg og það var voða lítið hægt að gera. Ég fæ hringingu frá mágkonu minni sem ég held að hafi fyrst orðið vör við eldinn. Ég rauk beint út í bíl og við fórum strax að græja okkur hjá slökkviliðinu. Þá var eiginlega ekkert hægt að gera því eldurinn var orðinn það mikill. Hitinn var mikill og það rauk af glóðinni.  Við fórum að reyna að verja næsta hús, Miðgarða", segir Svavar Gylfason slökkviliðsstjóri. „Það var mikill vindur og við sprautuðum á glæðurnar. Þetta skeiði ótrúlega fljótt á svona 20 mínútum þá var kirkjan eiginlega horfin."

Er einhver grunur um eldsupptök?

„Mér finnst ekkert annað en rafmagn koma til greina. Það voru engin kerti á leiðum vegna veðurs. Mér fannst eldurinn vera mestur í turninum þegar við komum á vettvang og þar er rafmagnstaflan. Það var mikið slagveður í gærkvöldi.  Það voru nánast allir Grímseyingar að fylgjast með", segir Svavar.

Hann segir að það hafi verið erfitt að horfa uppá kirkjuna fuðra upp. „Hún hefur bæði sögulegt og menningarlegt gildi. Hún var falleg og aðdráttarafl þeirra sem heimsóttu Grimsley."  Svavar segir að lögregla og rannsóknarmenn séu væntanlegir á vettvang í dag ef hægt verður að fljúgja.

Mynd: Sigurður Henningsson / RÚV