Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Andstæðingar Úkraínuforseta að baki árás á ráðgjafa

22.09.2021 - 14:07
Police officers collect evidence near the car of of Serhiy Shefir, first assistant to President Volodymyr Zelenskyy, near Kyiv, Ukraine, Wednesday, Sept. 22, 2021. Ukrainian police say the car of a top aide to the country's president came under heavy gunfire, seriously wounding the driver. The national police said more than 10 bullets were fired Wednesday at the car of Serhiy Shefir, first assistant to President Volodymyr Zelenskyy. (AP Photo/Evgeniy Maloletka)
Tíu kúlugöt eru á bíl Sergiys Shefirs, ráðgjafa forseta Úkraínu.  Mynd: AP
Enginn hefur verið handtekinn eftir skotárás á bíl nánasta ráðgjafa Volodymyrs Zelenskys, forseta Úkraínu, í dag. Lögreglan telur pólitískar ástæður liggja að baki árásinni. Forsetinn segir að ítarleg rannsókn á henni fari fram.

Sergiy Shefir er fyrrverandi handritshöfundur og hefur verið náinn samstarfsmaður Zelenskys forseta um margra ára skeið. Sjálfur er forsetinn fyrrverandi gamanleikari.

Skotið var á bíl Shefirs í morgun þegar hann var á ferð sunnan við höfuðborgina Kænugarð. Tíu skot hæfðu bílinn. Shefir slapp ómeiddur, en bílstjóri hans særðist alvarlega.

Zelensky er staddur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Hann sagði að sér þætti lúalegt að kasta á sig kveðju með því að skjóta á aðstoðarmanninn úr launsátri. Árásin ætti ekki eftir að breyta neinu. Hann og samstarfsmenn hans ætluðu að halda áfram að færa þjóðlífið í Úkraínu til betri vegar.

Sjálfur taldi Sergiy Shefir árásina tilraun til að grafa undan forsetaembættinu. Igor Klymenko ríkislögreglustjóri kvaðst einnig telja að pólitískar ástæður lægju að baki skotárásinni þegar hann ræddi við fréttamenn í Kænugarði í dag. Tilgangurinn væri annað hvort að skapa þrýsting á æðstu stjórn landsins eða reyna að grafa undan henni.

Fréttastofan Interfax-Úkraína hefur eftir embættismanni að líkast til hafi útsendarar spilltra viðskiptajöfra verið að verki. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV