Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins styðja Frakka

epa08224030 European High Representative of the Union for Foreign Affairs, Josep Borrell gives a press conference at the end of a European foreign affairs council in Brussels, Belgium, 17 February 2020.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna lýstu yfir fullum stuðning við málstað Frakka í deilunni við Ástrali og Bandaríkjamenn vegna uppsagnar kaupa á tólf kafbátum.

Á miðvikudaginn var riftu Ástralir samningi við franska fyrirtækið Naval Group um kaupin. Skömmu síðar var tilkynnt um Aukus varnarsamkomulag Breta, Bandaríkjamanna og Ástrala um auknar varnir á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.

Franskir stjórnmálamenn urðu æfir og sökuðu Ástraii og Bandaríkjamenn um lygar og svikabrögð. Samkomulagið felur í sér að Ástralir fá aðgang að bandarískri tækni við smíði kjarnorkukafbáta í stað þeirra frönsku. Ástralskir ráðamenn segja að Frökkum hafi verið tilkynnt löngu fyrirfram um ætlun þeirra að rifta samningum. 

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í samtali við fréttamenn að loknum fundi ráðherrana í New York að sú ákvörðun sé í hróplegri mótsögn við fyrirætlanir um aukið samstarf við sambandið á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.

Kínverjar fordæmdu Aukus-samkomulagið umsvifalaust og segja það valda óstöðugleika í heimshlutanum. Norður-Kóreumenn fullyrða að samkomulagið komi af stað kjarnorkuvopnakapphlaupi og kollvarpi hernaðarjafnvægi á svæðinu og í heiminum öllum.