Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stofnandi Evergrande stappar stáli í starfsfólk

21.09.2021 - 05:27
epa09471097 People watch their mobile phones near an Evergrande new housing development in Beijing, China, 16 September 2021. Chinese property developer Evergrande said on 14 September that its property sales will likely continue to drop significantly in September, resulting in a further deterioration of its cash situation, according to media reports.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Xu Jiayin stjórnarformaður kínverska fasteignarisans Evergrande kveðst vongóður um að fljótlega birti til í rekstri fyrirtækisins. Hann lofaði starfsfólki því í bréfi að gera allt til að fyrirtækið héldi velli og þakkaði því vel unnin störf.

Hlutabréf féllu á markaði í Hong Kong í gær og í kjölfarið á öðrum mörkuðum vegna erfiðrar skuldastöðu fyrirtækisins, þar á meðal á Íslandi. Óttast er að fyrirtækið stefni í gjaldþrot en það hefur átt í vandræðum með að greiða af skuldum sínum.

Gjaldþrot fyrirtækisins, sem stofnað var 1996, gæti haft veruleg og víðtæk áhrif. Félagið skuldar birgjum einnig verulegar fjárhæðir auk þess sem hefur ekki byggt yfir milljón íbúðir sem þegar hefur verið greitt fyrir. Stjórn þess hefur reynt hvað hún getur að róa órólega kaupendur. 

Stjórnarformaðurinn heitir því að áfram verði haldið af kappi við að byggja þær íbúðir sem þegar hefur verið greitt fyrir og tryggja þannig að fasteignakaupendur, fjárfestar og hluthafar haldi óskertum hlut. 

Fólk safnaðist samant til mótmæla við höfuðstöðvar Evergrande í Kína auk þess sem fjárfestar og birgjar krefja fyrirtækið um greiðslur. Fyrr í september kom yfirlýsing frá fyrirtækinu þar sem viðurkennt var hve erfið staðan væri og að það gæti átt í vanda við að standa við skuldbindingar sínar.