Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ríkið ætlar að hlaupa undir bagga með útihátíðum

21.09.2021 - 16:35
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að greina vanda þeirra íþrótta- og æskulýðsfélaga sem aflýsa hafa þurft viðburðum vegna sóttvarnaráðstafana. Þessar ráðstafanir ná til að mynda til útihátíða á borð við Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Í svari frá fjármálaráðuneytinu við fyrirspurn fréttastofu segir að verkefnið felist í að móta tillögur að úrræði til að mæta vanda þeirra.

„Eftir atvikum gæti verið um að ræða sjóð þar sem sækja mætti styrk til að koma til móts við óumflýjanlegan útlagðan kostnað. Að auki verði hægt að sækja styrk vegna tekjufalls sem ekki er mætt með öðrum úrræðum eða öðrum tekjuöflunarleiðum. Slíkum sjóði væri ætlað að bæta tekjufallið að hluta og með því verður dregið úr neikvæðum áhrifum á þá mikilvægu íþrótta- og æskulýðsstarfsemi sem í hlut á,“ segir í svarinu.

Ekki hefur reynst unnt að halda stórar hátíðir eins og Þjóðhátíð seinustu tvö ár. Í sumar var hátíðinni aflýst með skömmum fyrirvara og var hluta af hátíðardagskránni streymt.