Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ræddi við Bjarkeyju um færslu um ríkisstjórnarmyndun

21.09.2021 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fann að yfirlýsingum Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur þingmanns flokksins um að ef niðurstaða kosninganna yrði í samræmi við þjóðarpúls Gallup færi flokkurinn ekki í ríkisstjórn. Katrín segir að það samræmist ekki stefnu flokksins.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem þingmenn stjórnarflokkanna gefa út yfirlýsingar þessa efnis í aðdraganda kosninga. Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði í kosningaþætti á Hringbraut í vikunni að Sjálfstæðisflokkurinn færi ekki í ríkisstjórn ef flokkurinn fær minna en 25 prósenta fylgi í kosningunum. Ekki hefur náðst í Bjarna Benediktsson formann flokksins um þessi ummæli Brynjars. 

Í gær var gefinn út nýr þjóðarpúls Gallups. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir birti niðurstöðuna á Facebook og sagði að yrði þetta niðurstaðan ættu Vinstri græn ekki erindi í ríkisstjórn. Hún fjarlægði síðar færsluna. Mbl.is sagði frá færslunni.

„Skila­boðin eru skýr, fylgið fer úr 17% í 10% og því ljóst að vilji er til þess að aðrir taki við kefl­inu.“ sagði Bjarkey í færslunni.

Katrín Jakobsdóttir segir að þetta sé ekki í samræmi við stefnu flokksins í þessum málum.

„Nei það er ekki svo. Í fyrsta lagi er það þannig að við tökum ekki ákvörðun um þetta fyrr en niðurstöður kosninga liggja fyrir. Skoðanakannanir, eins góðar og þær nú eru, ráða ekki för okkar í þessum málum enda má sjá það að þær eru ansi breytilegar dag frá degi þessa dagana og margir flokkar sem liggja þétt saman í aðdraganda kosninga. Þannig að það er alveg óbreytt afstaða okkar í VG. Við erum reiðubúin að mynda ríkisstjórn um þau málefni sem við setjum á oddinn.“ segir Katrín.

En höfðuð þið í forystu flokksins einhver afskipti af hennar orðum? 

„Það hafa allir málfrelsi í Vinstri hreyfingunni grænu framboði en hins vegar er þetta ekki afstaða hreyfingarinnar að standa utan ríkisstjórnar.“ 

Baðstu Bjarkeyju um að fjarlægja þessa færslu?

„Ég ræddi við Bjarkeyju um færsluna af því að það voru frekar skiptar skoðanir innan hreyfingarinnar um þessi skilaboð.“ segir Katrín.