Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Munkar skemmdu fjarskiptamöstur

21.09.2021 - 17:24
Loftnetamöstur Símans
 Mynd: RÚV
Tveir franskir munkar hafa verið ákærðir fyrir skemmdarverk. Þeir voru staðnir að því að kveikja í fjarskiptamöstrum sem reist voru fyrir 5G farsímanetið.

Munkarnir laumuðu sér út í skjóli nætur í síðustu viku og kveiktu í mastri. Nóttina eftir var lögreglan viðbúin og stóð þá að verki við að kveikja í öðru.

Munkarnir búa í afskekktu klaustri í Rónardal í Suðvestur-Frakklandi og tilheyra afar íhaldssamri reglu hettumunka. Þeir játuðu afbrot sín greiðlega, -  sögðust hafa ætlað að vekja athygli fólks á hættunni sem stafar af 5G farsímakerfunum.

Símafyrirtækin lofa því að þessi tækni gefi notendunum færi á enn meiri gagnahraða en eldri kerfi. Mörg skemmdarverk hafa verið unnin á búnaði franskra símafyrirtæki sem bjóða upp á tenginguna. Skemmdarvargarnir bera því við að tæknin sé hættuleg heilsu fólks.