Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

KSÍ vill að nefnd fari yfir viðbrögð vegna ofbeldismála

21.09.2021 - 22:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands hefur óskað eftir því við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands að stofnuð verði nefnd til að gera úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð sambandsins vegna kynferðisofbeldismála tengdum leikmönnum landsliða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ.

Stjórn og formaður sambandsins, Guðni Bergsson, sögðu af sér í lok síðasta mánaðar í kjölfar umræðu um ofbeldismál sem tilkynnt höfðu verið sambandinu. Í tilkynningu KSÍ segir að nefndin eigi að bregðast við ásökunum um þöggun og taka sérstaklega til athugunar hvort einhverjar þær aðstæður séu uppi innan sambandsins sem hamli þátttöku kvenna innan þess. „Þetta er gert í tengslum við fullyrðingar sem fram hafa komið í opinberri umræðu um að KSÍ sé karlægt og fráhrindandi fyrir konur. Í því sambandi verður skoðað hvort skipulag KSÍ eða aðrir þættir í starfseminni séu hamlandi fyrir þátttöku kvenna í starfinu,“ segir í tilkynningunni. 

Þá ítrekar sambandið afsökunarbeiðni sína til þolenda og heitir því að vinna ótrautt að því að bæta menningu og starfsanda innan hreyfingarinnar. „KSÍ vill laga starfshætti sína að kröfum tímans um viðbrögð við kynferðisofbeldi. Í þessu skyni hefur verið leitað til sérfræðinga og ráðgjafa til að aðstoða hreyfinguna við að vinna að úrbótum til framtíðar og bæta samskipti og upplýsingaflæði til samfélagsins. Stjórn mun leitast eftir að upplýsa um framgang mála fram að aukaþingi,“ segir enn fremur í tilkynningunni. Þar segir einnig að sambandið fordæmi ofbeldi af öllu tagi og sé að bæta afgreiðslu ofbeldismála og tryggja að þau fari í réttan farveg hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs eða hjá lögreglu. 

Hjá KSÍ hafa þegar tveir faghópar tekið til starfa hjá ÍSÍ og KSÍ sem hafa það hlutverk að skoða ferla, vinnubrögð og heimildir til aðgerða hjá samböndunum. 

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni.