
Gul veðurviðvörun fyrir allt landið í dag
Víða eru líkur á vatnavöxtum, snörpum vindhviðum við fjöll og veður er því varasamt til ferðlaga. Fólk er hvatt til að huga að lausum munum sem geta fokið.
Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar skellur veðrið á með morgninum með vindhæð 15 til 23 metrum á sekúndu, en að veðurhæðin verði mest síðdegis á sunnan- og austanverðu landinu. Veðrið verður vont um allt land.
Sviptingar í vindátt má kenna því að lægðarmiðja gengur yfir landið. Þá breytist úr austlægri vindátt yfir í vestlega. Veðrið má kenna djúpri og kröftugri haustlægð.
Síðdegis snýst í breytilega eða vestlæga átt með 20 til 28 metrum á sekúndu sunnan- og austanlands. Hiti verður á bilinu fjögur til tólf stig. Það dregur úr vindi og úrkomu á vestanverðu landinu annað kvöld.
Ekki lægir þó almennilega austanlands fyrr en á miðvikudagsmorgun. Þá verður orðið sæmilega rólegt veður með skúraleiðingum um land allt.