Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Gagnaver gæti risið við Akureyri

21.09.2021 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Akureyrarbær hefur vinnu að deiliskipulagi með það fyrir augum að hægt verði að úthluta lóðum fyrir byggingu gagnavers. Tilkoma Hólasandslínu 3 mun breyta stöðu mála varðandi raforku á Akureyri og að gera orkufrekan iðnað fýsilegri á Eyjafjarðarsvæðinu og víðar.

Óska eftir lóð undir gagnaver

Á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar var lagt fyrir erindi atNorth ehf varðandi möguleika á lóð við Hlíðarfjallsveg til að reisa þar gagnaver. Fyrirtækið óskar eftir að fá úthlutað eins hektara lóð með forgangsrétt á nærliggjandi lóðum til stækkunar. Umrætt svæði er í aðalskipulagi skilgreint sem athafnasvæði fyrir hreinlega umhverfisvæna atvinnustarfsemi og telur Pétur Ingi Haraldsson, sviðstjóri skipulagssviðs Akureyrarbæjar, gagnaver falla ágætlega undir ákvæði aðalskipulagsins. 

Orðinn raunverulegur iðnaður

Til þessa hefur Eyjafjarðarsvæðið ekki þótt hentugt fyrir orkufreka starfsemi á borð við gagnaver. Með tilkomu Hólasandslínu 3 sem verið að að leggja milli Rangárvalla á Akureyri og nýs tengivirkis á Hólasandi, breytist staða mála varðandi raforku á línuleiðinni sem er innan fjögurra sveitarfélaga, þar á meðal Akureyrarkaupstaðar.

Gísli Kr. Katrínarson er framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá atNorth segir ánægjulegt að Akureyrarbær hafi tekið vel í erindið. Hann segir Gagnaversiðnaðinn hafa stækkað talsvert á síðustu árum og orðið að raunverulegum iðnaði á síðustu árum.

Umsókn fyrirtækisins um lóð á Akureyri er eitt af skrefunum sem þurfi að taka. „Þetta er engin gulltrygging um að við munum hefja starfsemi en þetta er eitt af skrefunum en við þurfum að leysa úr ýmsum öðrum málum áður en til framkvæmda kemur,“ segir Gísli.