Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ekkert sem segir að við viljum ekki hafa meiri jöfnuð“

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Meirihluti almennings telur á ábyrgð stjórnvalda að minnka tekjumun og styður hátekjuskatt samkvæmt nýrri rannsókn. Prófessor í félagsfræði segir að langtímaáætlun þurfi til að bæta kjör öryrkja. Þá þurfi að koma til móts við einstæða foreldra. Fréttastofa beinir sjónum að ójöfnuði í aðdraganda kosninga.

Kjaramál, meðal annars ójöfnuður er eitt af fjórum stóru kosningamálunum samkvæmt íslensku kosningarannsókninni. „Það virðist vera ofarlega í huga kjósenda í þessum kosningum og það er mörgum sem finnst það sérkennilegt því heilt yfir er íslenskt samfélag mjög jafnt,“ segir Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent við félagsráðgjafadeild við Háskóla Íslands.

„Ójöfnuður er klárlega til staðar í íslensku samfélagi,“ segir Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

„Það er ójöfnuður en það er auðvelt að finna dæmi um meiri ójöfnuð erlendis,“ segir Þórólfur Geir Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Þórólfur segir að vegna smæðar landsins væri mögulega réttara að bera ójöfnuðinn hér saman við sveitarfélög eða borgir nágrannalandanna, frekar en önnur lönd í heild. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Þórólfur Geir Matthíasson, prófessor.

Íslendingar upplifa ekki breytingar

Sigrún Ólafsdóttir kynnti niðurstöður alþjóðlegu viðhorfakönnunarinnar um ójöfnuð í fyrradag. Það kemur fram að þó að tekjumunur sé minni á Íslandi en annars staðar sé hlutfall þeirra sem telja hann of mikinn tiltölulega hátt. 82% telur að tekjumunur sé of mikill hér á landi samkvæmt rannsókninni, sem mældi viðhorf Íslendinga til ójafnaðar í fyrra. „Það er fullt að hlutum sem hefur verið gert en Íslendingar upplifa ekki að mikið hafi verið gert síðan 2009, það er mikilvægt að velta því fyrir sér af hverju það er,“ segir Sigrún.

Meirihluti almennings eða um það bil sjö af hverjum tíu telur að ríkisvaldið ætti að beita sér til þess að minnka tekjumun. Og þá telja langflestir að stjórnvöld eigi að bera hitann og þungann af því, eða ríflega 60%. 16% telja að verkalýðsfélög eigi að bera þann þunga og 15% að einkafyrirtæki beri ábyrgð. Þrjú prósent segja að það þurfi ekki að draga úr tekjumun.

Meirihluti styður hátekjuskatt

„Þá kemur spurningin um hvort stjórnvöldum hafi tekist vel eða illa að draga úr þessum tekjumun. Þar sjáum við að það er einungis 7% þjóðarinnar sem telja að vel hafi tekist til að draga úr tekjumun af hálfu stjórnvalda,“ segir Sigrún. Næstum 8 af hverjum tíu telja að hátekjufólk ætti að borga stærri hluta í skatt.

„Ég held að fólk sé að upplifa vaxandi gjá, á milli þeirra sem eiga rosalega mikið af peningum og þeirra sem eiga eitthvað, og jafnvel mjög lítið,“ segir Sigrún.

Kolbeinn segir að huga þurfi að þeim sem hafi lægstar tekjurnar og kjörum einstæðra foreldra. „Að gera eitthvað í auknum mæli til að koma til móts við einstæða foreldra gæti lyft ansi mörgum upp fyrir lágtekjumörkin,“ segir Kolbeinn.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kolbeinn Hólmar Stefánsson, dósent.

Meirihluti fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman eða átta af hverjum tíu samkvæmt nýrri skýrslu Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem gerð var fyrir Öryrkjabandalagið. Sama hlutfall hefur neitað sér um heilbrigðisþjónustu, sex af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum útgjöldum. 

Klárt dæmi um fátæktargildru

„Kerfið okkar er byggt þannig upp að það er mjög erfitt að bjarga sér sjálfur, það er erfitt að bæta kjör sín. Það er alveg klárt dæmi um fátæktargildru,“ segir Kolbeinn.

„Þetta þarf að laga. Það þarf að flytja þessi skerðingarmörk miklu hærra upp, það þarf að gera aðrar ráðstafanir til að takast á við það tekjufall sem því fylgir fyrir ríkissjóð en það er bara úrlausnarefni fyrir hagfræðinga og stjórnmálamenn. Þeir ættu að vinda bráðan bug á því að gera það því að mér finnst það smánarblettur á íslenska efnahagskerfinu að senda reikning með 70% jaðarskatti til þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu okkar,“ segir Þórólfur.

Þyrfti langtímaáætlun fyrir öryrkja

„Hvað varðar kjör öryrkja þá er mjög erfitt að sjá að það væri hægt að leiðrétta þau í dag miðað við það sem þau ættu að vera miðað við prinsippin sem liggja undir í lögunum, það sem þyrfti að gera er að búa til langtíma áætlun með víðtækari sátt um það hvernig við ætlum að ná öryrkjum á þann stað sem þeir eiga að vera í samfélaginu,“ segir Kolbeinn Hólmar.

„Þetta eru ekki alveg einföld mál að leysa. Og það krefst ákveðins kjarks að gera það. Það er verið að flytja fjármuni frá mörgum til minni hóps. Ef menn fara að reikna það í atkvæðum getur það verið að mönnum finnist það erfitt,“ segir Þórólfur.

Sigrún segir líklegt að eftir hrunið séu Íslendingar meðvitaðri um ójöfnuð í samfélaginu. „Við sjáum alveg að Íslendingar meta samfélagið réttilega tiltölulega jafnt. Það eru rosalega fáir sem segja að það sé rosalega mikill ójöfnuður hér. Við sjáum það líka að við viljum hafa það enn jafnara. Við þurfum alltaf að hafa þetta í huga, bara af því að við komum vel út í alþjóðlegum samanburði. Þá er ekkert sem segir að við viljum ekki hafa meiri jöfnuð.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV