Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

20 kindur drukknuðu þegar bátur sökk við Stykkishólm

21.09.2021 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Sextíu kindur fóru í sjóinn og tuttugu þeirra drukknuðu þegar bátur sökk um það bil 50 metra úti fyrir Stykkishólmi á sunnudag. Bergur Hjaltalín var annar tveggja manna um borð í bátnum sem átti að flytja kindur úr Brokey á Breiðafirði í sláturhús á Hvammstanga, með viðkomu í Stykkishólmi. Bergur og frændi hans fóru báðir í sjóinn en hvorugum varð meint af.

Ekki nægur þungi undir bátnum

„Svona gerast slysin. Maður hefur ekki lent í þessu áður. Við erum búnir að gera þetta í fjölda ára og það hefur alltaf gengið vel,“ segir Bergur í samtali við fréttastofu. 

Frændurnir voru að taka í notkun nýjan bát, sem átti að vera góður og traustur. „Við vorum búnir að útbúa hann en hann hefur greinilega ekki haft nógu mikinn þunga og þegar við tókum fór féð út í aðra hliðina. Þá lagðist báturinn og tók sjó inn á hliðina og sökk,“ segir Bergur. Allar kindurnar sextíu fóru í sjóinn, og mennirnir sjálfir með. Sumar kindurnar syntu sjálfar í land, öðrum var bjargað en tuttugu drukknuðu.

Hjálpin nánast við hendi

Bergur segir að þeir frændur hafi verið í sjónum í rúmar fimm mínútur. „Ég er syndur vel, við vorum vel búnir, reyndar í svolítið þungum fötum, en ekki í neinni bráðri lífshættu, enda kom björgunin fljótt,“ segir hann. 

Það hafi komið sér vel að hjálpin hafi verið nánast við höndina: „Það komu ótrúlega margir að aðstoða okkur. Það koma alltaf margir að höfninni og fylgjast með þegar kindur eru fluttar í land. Fólk á höfninni hoppaði út í báta og kom okkur til hjálpar og svo var björgunarsveitin kölluð til. „En því miður náðist ekki að bjarga öllum,“ segir Bergur. Báturinn var dreginn í land en Bergur segir að hann verði ekki notaður nema eftir þónokkrar viðgerðir. 

„Aldrei séð þessa hættu fyrir“

Björgunarsveitin Berserkir var kölluð til og einn þeirra sem kom að björgunaraðgerðinni er Einar Þór Strand. Hann segir að hvorki hann né félagar hans í björgunarsveitinni hafi áður orðið vitni að slíku slysi: „Það man enginn eftir svona. Auðvitað getur svona hafa gerst fyrir áratugum en það man enginn hér eftir neinu þessu líku. Áður voru notaðir þyngri bátar og þótt rollurnar köstuðust til þá gerðist ekki neitt,“ segir hann í samtali við fréttastofu. Hann hafi margoft horft á kindur dregnar í land en aldrei séð þessa hættu fyrir. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV