Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tvísýnar kosningar framundan í Kanada

20.09.2021 - 03:21
epa07174026 Canada's Prime Minister Justin Trudeau during the Asia-Pacific Economic Cooperation (APEC) leaders retreat at APEC Haus in Port Moresby, Papua New Guinea, 18 November 2018. The Asia-Pacific Economic Cooperation (APEC) summit brings together world leaders from its 21 Pacific Rim member nations and is being hosted for the first time by Papua New Guinea.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Um það bil 27 milljónir Kanadamanna ganga til þingkosninga í dag, mánudag og búist er við tvísýnum úrslitum. Fyrstu kjörstaðir verða opnaðir klukkan 11 að íslenskum tíma en vegna fjölda póstatkvæða er ekki talið öruggt að talningu ljúki í kvöld.

Justin Trudeau forsætisráðherra boðaði heldur óvænt til kosninganna um miðjan ágúst. Minnihlutastjórn hans hefur gengið heldur illa að koma málum gegnum þingið og því greip hann til þessa ráðs.

Stjórnmálaskýrendur telja að Trudeau hafi búist við að auka fylgi Frjálslynda flokks síns í ljósi þess hve vel hefur gengið með bólusetningar gegn COVID-19.

Skyndileg útbreiðsla Delta-afbrigðisins setti strik í reikninginn og því er nú búist við að sagan frá kosningunum 2019 endurtaki sig þegar Trudeau tókst naumlega að halda völdum.

Stjórn hans hefur undanfarin misseri sýnt ákveðin þreytumerki eftir sex ár við stjórnvölinn og því hefur verið á brattann að sækja að tryggja fylgi við flokkinn.

Daniel Beland, stjórnmálafræðiprófessor við McGill háskóla í Montreal segir að í upphafi kosningabaráttunnar hafi spurningin snúist um hvort kjósendum þætti Frjálslyndir verðskulda meirihlutastjórn en nú undir lokin sé hún hvort þeir séu raunverulega maklegir þess að halda völdum.

Stjórnmálaskýrandinn Tim Powers telur að minnihlutastjórn Trudeaus haldi velli en að framtíð hans sem formaður flokksins sé að veði farnist flokknum illa.

Skoðanakannanir sýna að fylgi Frjálslyndra og Íhaldsflokks Erins O'Toole, helsta keppinautar Trudeaus sé nánast hið sama um 31%. Ríflega milljón greiddi atkvæði með pósti og því er ekki talið víst að úrslit liggi fyrir á mánudagskvöld.