Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þjóðarpúls: Flokkur fólksins bætir við sig og VG tapar

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Ríkisstjórnarflokkarnir fengju 30 þingmenn og myndu missa meirihluta á þingi, ef marka má nýjan þjóðarpúls Gallup fyrir fréttastofu RÚV.

Sjálfstæðisflokkur og VG missa þingmenn

Fylgi Vinstri grænna dregst nokkuð saman frá síðasta þjóðarpúlsi og mælist 10,2% en það myndi skila flokknum sex þingmönnum. Flokkurinn fékk ellefu þingmenn kjörna í seinustu kosningum.

Framsóknarflokkurinn hefur verið á skriði í könnunum síðustu vikur og mælist með 13,2% fylgi, næstmest flokka, og fengi níu þingmenn.

Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærstur en fylgið minnkar þó milli kannana. Alls segjast 21,2% kjósenda myndu kjósa flokkinn, sem myndi skila honum 15 þingmönnum, einum minna en í síðustu kosningum.

 

Flokkur fólksins hástökkvarinn

Samfylkingin er stærsti flokkur í stjórnarandstöðu en flokkurinn mælist með 12,7% fylgi, sem er svipað og flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Það gæfi átta þingmenn.

Hástökkvari könnunarinnar er Flokkur fólksins, sem mælist með 7,0% fylgi. Flokkurinn hefur í síðustu könnunum mælst í kringum fimm prósent og oft verið án þingmanna í könnunum. Yrðu þetta niðurstöður kosninga fengi flokkurinn hins vegar fjóra þingmenn.

Viðreisn mælist með 10,2% fylgi og sex þingmenn, og Píratar 11,5% og sjö þingmenn.

Sósíalistaflokkurinn er á svipuðu róli og í síðustu könnun. Alls segjast 7,3% aðspurðra myndu kjósa flokkinn sem skilaði flokknum fjórum þingsætum. Þá ætla 6,2% kjósenda að greiða Miðflokknum atkvæði sitt, sem jafnframt gæfi flokknum fjögur þingsæti.

Tveir flokkar, sem bjóða fram til þings, næðu ekki inn mönnum miðað við þessar niðurstöður. Þetta eru Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, sem mælist með 0,6% fylgi og Ábyrg framtíð.

Ekki hægt að mynda þriggja flokka stjórn

Ef þetta yrði niðurstöður kosninga væri ekki mögulegt að mynda þriggja flokka stjórn nema stjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Samfylkingar, en Samfylkingin hefur útilokað stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki.

Þá yrði fjögurra flokka stjórn yrði ekki mynduð án aðkomu Sjálfstæðisflokks.

Um könnunina

Gallup framkvæmdi könnunina dagana 13.-19. september. Könnunin var netkönnun og heildarúrtaksstærð 3.845. Þátttökuhlutfall var 52,5% og eru vikmörk á fylgi flokka 1,1-1,9% eftir flokkum.

Kjördæmakjörnum þingæstum var úthlutað miðað við niðurstöður í hverju kjördæmi fyrir sig, en jöfnunarsætum úthlutað miðað við niðurstöður á landsvísu.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV