Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stjórnarmyndunarumboðið bara goðsögn

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
„Ég sit þarna og er að borða desertinn á hátíðarkvöldverðinum. Það kemur þjónn til mín og segir að það sé síminn fram í eldhúsi, þá er það Jóhanna [Sigurðardóttir] alveg á útopnu og tilkynnir mér það að hún muni ekki mæta á Bessastaði næsta morgun. Ég segi, þetta er þín ríkisstjórn, þú átt að verða forsætisráðherra, það er ekki hægt að halda ríkisráðsfundinn ef þú mætir ekki,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, í viðtali í kosningahlaðvarpi RÚV, X21.

Viðtalið við Ólaf í kosningahlaðvarpinu má heyra í spilara RÚV og í öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

Í þættinum segir Ólafur áður ósagðar sögur frá sinni reynslu af stjórnarmyndun, þar á meðal þegar minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð 1. febrúar 2009. Framsóknarflokkurinn varði stjórnina vantrausti. „Á þeim grundvelli fengu Ingibjörg Sólrún og Steingrímur J. Sigfússon saman umboðið. Það hafði aldrei gerst áður,“ segir Ólafur Ragnar.

Sú stjórnarmyndun tók nokkra daga en stóð tæpt. „Nýi formaður Framsóknar fór að gera sig gildandi varðandi stefnumálin. Þetta var að liðast í sundur, þannig ég hringdi í hann, og sagði: Þú komst hér til Bessastaða og tilkynntir mér það að Framsóknarflokkurinn væri tilbúinn að verja stjórnina vantrausti, í slíkri yfirlýsingu felast engin málefnaleg skilyrði,“ segir Ólafur. Formaður Framsóknarflokksins var þá Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem núna er formaður Miðflokksins. Sigmundur fullvissaði Ólaf um að samkomulagið stæði enn.

„Þetta er þín ríkisstjórn“

Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra en Ólafur segir að hún hafi verið að hugsa um að hætta við kvöldið áður. Þá var hann á hátíðarkvöldverði Lions-hreyfingarinnar og Jóhanna hringir. „Þá er það Jóhanna alveg á útopnu og tilkynnir mér það að hún muni ekki mæta á Bessastaði næsta morgun. Ég segi, þetta er þín ríkisstjórn, þú átt að verða forsætisráðherra, það er ekki hægt að halda ríkisráðsfundinn ef þú mætir ekki. Þá hafði hún verið pirruð á skilyrðum sem Sigmundur hafði sett svo hún tilkynnti mér að hún myndi ekki mæta næsta morgun. Þegar ég var búinn að borða desertinn og kveðja gestgjafana þá fór ég út í bíl og hringdi í Össur Skarphéðinsson og sagði: Nú hefur þú bara eitt verkefni, það er að tryggja að forsetinn hafi forsætisráðherra á þessum ríkisráðsfundi sem verður kl. 10.“ 

Ólafur segir að foringjar flokkana hafi átt fund á miðnætti. „Þannig að ég gat sem sagt vaknað á Bessastöðum næsta morgun og það mættu einhverjir til að sitja í kringum borðið og Jóhanna varð forsætisráðherra en svona varð þetta atburðarás og hún var ekki samkvæmt neinum leikreglum um stjórnarmyndanir.“

Stjórnarmyndunarumboðið bara goðsögn

Ólafur nefndi þessa sögu í X21 sem dæmi um óvenjulegar stjórnarmyndanir. Hann segir að stjórnarmyndunarumboð forsetans, sem forystufólk flokkana fær venjubundið eftir kosningar, eigi sér enga festu í stjórnarskránni. „Það er kannski svolítið bratt af mér að segja það, hafandi verið forseti í 20 ár, en þetta með umboðið er í raun og veru goðsögn. Umboðið á sér enga stjórnskipulega festu. Það er bara venja sem flokksforingjarnir hafa ákveðið að virða og forsetinn reynt að praktisera.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV