Rostungurinn synti á haf út í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Jóhannsdóttir

Rostungurinn synti á haf út í nótt

20.09.2021 - 08:06

Höfundar

Rostungurinn sem gerði sig heimakominn á bryggjunni í Höfn í Hornafirði í gær lét sig hverfa í nótt. Lögregluvarðstjóri á Höfn segir að hann hafi vakið mikla athygli bæjarbúa, ekki sé vitað til þess að dýrið hafi valdið neinum skemmdum á bryggjunni

Jón Garðar Bjarnason varðstjóri hjá lögreglunni á Höfn segir að rostungsins hafi síðast orðið vart á miðnætti, en þegar farið var að vitja um hann upp úr klukkan sjö í morgun var hann farinn. Jón segir að ekki séu sjáanlegar neinar skemmdir eftir rostunginn á bryggjunni.

„Hann var nú ekki það stór,“ segir Jón og segir til marks um það að skögultennur dýrsins hafi verið frekar smáar. „Þannig að þetta er nú ekki mjög gamalt dýr, held ég,“ segir hann.

Rostungurinn vakti mikla athygli í bænum og bæjarbúar flykktust á bryggjuna til að líta gestinn augum. Jón segir að honum hafi líkað athyglin ágætlega en látið í sér heyra þegar fólk fór of nálægt honum.

Hefur þetta gerst áður í bænum, svo þú vitir til? „Ég heyrði að það hefði einhverntímann rostungur komið hingað fyrir einhverjum árum síðan og þá í Jökulsárlón,“ segir Jón.

En nú er hann farinn og eitthvert á haf út? „Vonandi. Það er auðvitað ekkert hægt að segja um það, en það er fjöldinn allur af ferðamannaperlum sem hann getur skoðað. Vonandi að hann hafi farið út og náð að redda sér.“

Tengdar fréttir

Austurland

Rostungur á Höfn í Hornafirði

Innlent

Rostungur við Látrabjarg

Austurland

Rostungurinn brosti til ljósmyndara

Mannlíf

Rostungur flatmagar á Hofstrandarsandi