Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rostungurinn mættur aftur á Höfn og nýtur athyglinnar

20.09.2021 - 20:58
Mynd með færslu
 Mynd: Lilja Jóhannsdóttir
Rostungurinn sem skaut upp kollinum á Höfn í Hornafirði í gær, og talið að sé skemmdarvargur af írskum ættum að nafni Wally, sneri aftur á bryggjuna í Höfn upp úr klukkan 19:30 í kvöld og naut þar athygli bæjarbúa sem fjölmenntu til að berja hann augum.

Fréttastofa ræddi við Lilju Jóhannesdóttur, íbúa á Höfn sem sendi fréttastofu myndir af rostungnum þegar hann mætti fyrst í gær. Að hennar sögn lá hann makindalega á nákvæmlega sama bletti á bryggjusporði við höfnina og í gær.

Stríður straumur bæjarbúa lá að höfninni til að berja rostunginn augum. Það sló að líkindum ekki á áhuga gesta og gangandi að líkur eru taldar á því að þarna fari þekktur rostungur sem gengur undir nafninu Wally og er hálfgerður dólgur hefur valdið töluverðum skemmdum á smábátum í höfninni í Cork á Írlandi.

Að sögn Lilju virtist rostungurinn láta sér vel líka við athyglina sem hann fékk en rak þó upp einstaka urr ef krakkar komu of nærri honum. Lögregla bæjarins var á vettvangi og sá til þess að allt færi vel fram.

Hægt er að sjá bryggjuna sem hann liggur á í vefmyndavél sem er aðgengileg með því að smella hér

Komur rostunga á Höfn í Hornafirði eru fátíðar en þó ekki án fordæma, að sögn Lilju. Þá hafa þeir einnig látið á sér kræla við Jökulsárlón hin seinni ár. Lilju telst þó til að oft líði 3-5 ár milli þess sem til þeirra sést.

Lilja sagðist í samtali við fréttastofu ekki hafa búist frekar við því að rostungurinn gerði sig heimakominn á ný.

„Ef til vill leist honum ekki allskostar á sjólagið þegar hann ætlaði að halda för sinni áfram. Það hefur verið svolítið mikill sjór hérna fyrir utan ósinn,“ sagði Lilja að endingu.