Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ökumaður í banaslysi undir áhrifum fíkniefna og lyfja

20.09.2021 - 19:13
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið við rannsókn á banaslysi sem varð á Reykjanesbraut við Dalveg þann 10. mars 2020. Í slysinu lést farþegi fólksbifreiðar eftir að bifreiðin hafnaði á ljósastaur.

Þetta kemur fram á vef rannsóknanefndarinnar.

Tildrög umrædds slyss voru á þá leið að ökumaður missti stjórn á bifreið sinni á frárein frá Reykjanesbraut að Dalvegi þegar ökumaður sem skipti um akrein ók í veg fyrir hann. Bifreiðin hafnaði með hægri hlið á ljósastaur á mikilli ferð með þeim afleiðingum að farþegi í aftursæti, 30 ára karlmaður, lét lífið af völdum áverka sem af slysinu hlutust. 

Áfengis- og lyfjarannsókn á ökumanni bifreiðarinnar sem lenti á ljósastaurnum leiddi í ljós að hann var undir áhrifum fíkniefna og sljóvgandi lyfja.

Þá kom í ljós að hann var þar að auki ekki með ökuréttindi þegar slysið varð og hafði ítrekað gerst brotlegur við umferðarlög, meðal annars hafði hann ekið ítrekað undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án ökuréttinda.

Fram kemur í skýrslunni að akstur undir áhrifum áfengis, vímuefna og lyfja sé verulegt vandamál. Af sjö banaslysum sem urðu á Íslandi árið 2020 voru ökumenn í þremur slysum undir slíkum áhrifum. Alþekkt sé að vímuefni hafi áhrif á dómgreind ökumanna og skynjun þeirra á umhverfið. Þættir eins og viðbragð, hreyfistjórnun og rökvísi skerðist og líkur á slysi aukist.