Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Norður-Kórea: Aukus skapar kjarnorkuvopnakapphlaup

20.09.2021 - 01:19
epaselect epa09470853 Britain's Prime Minister Boris Johnson, Australia's Prime Minister Scott Morrison (C) and US President Joe Biden attend a joint press conference via audio visual link (AVL) from The Blue Room at Parliament House in Canberra, Australian Capital Territory, Australia, 16 September 2021. Australia, the United Kingdom and the United States agreed to the creation of a trilateral security partnership to be known as AUKUS.  EPA-EFE/MICK TSIKAS AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu segir hættu á að Aukus hernaðarsamkomulag Bandaríkjamanna, Breta og Ástrala komi af stað kjarnorkuvopnakapphlaupi á Asíu-Kyrrahafssvæðinu.

Samkomulagið gerir Áströlum kleift að nýta bandaríska tækni við smíði kjarnorkuknúinna kafbáta. Þarlend stjórnvöld heita því að þeir verði ekki búnir kjarnaflaugum.

Ríkismiðill í Norður-Kóreu hefur eftir utanríkisráðuneytinu að samningurinn sé sérlega óæskilegur, hættulegur og geti kollvarpað hernaðarjafnvægi á svæðinu og í heiminum öllum.

Einkum megi kenna Bandaríkjamönnum um að ekki verði dregið úr fjölgun kjarnavopna í heiminum. Norður-Kóreumenn hafa undanfarið gert tilraunir með langdræg flugskeyti, bæði af jörðu og frá kafbátum.

Aukus-samkomulagið er helst talið beinast að útþenslu Kínverja í heimshlutanum.