Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Dyrnar til Bandaríkjanna að opnast

20.09.2021 - 14:36
epa08806891 President-elect Joe Biden (C) on stage during a celebratory event held outside of the Chase Center in Wilmington, Delaware, USA, 07 November 2020. Major news organizations have called the US presidential election 2020 for democrat Joe Biden, defeating incumbent US President Donald J. Trump.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Joe Biden. Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrír hátt settir embættismenn Evrópusambandsins segja að bráðlega verði opnað fyrir ferðalög bólusettra þegna Evrópusambandsins til Bandaríkjanna.

Fjölmiðillinn Politio hefur eftir þremur hátt settum embættismönnum innan ESB að búið sé að samþykkja að aflétta ferðatakmörkunum þegna sambandsins til Bandaríkjanna.

Þá er vitnað í Stavros Lambrindis, embættismanni ESB gagnvart Bandaríkjunum á Twitter að von sé á jákvæðum fréttum mjög bráðlega, jafnvel í dag. 

Viðskiptafulltrúi ESB og ráðgjafar Bandaríkjastjórnar í málefnum tengdum faraldrinum hafa setið á fundum í Hvíta húsinu í dag og er búist við tilkynningu frá þeim síðar í dag. 

Þrýst hefur verið á Bandarísk stjórnvöld mánuðum saman að aflétta ferðatakmörkunum sem ráðamenn í ESB telja mjög ósanngjarnt. Gert er ráð fyrir að samkomulagið nái til Shengen ríkja, þar með talið Íslands. 

Afléttingin nær til bólusettra einstaklinga og er gert ráð fyrir að reglurnar taki gildi innan nokkra vikna, sennilega í nóvember. Frá því í mars í fyrra hefur verið óheimilt að ferðast til Bandaríkjanna, nema í undantekningartilfellum. 

Um seinustu mánaðamót ákvað Evrópusambandið að taka Bandaríkin af lista sambandsins yfir þau lönd sem undanþegin eru sóttvarnaaðgerðum við komuna til landa sambandsins.

ESB tók auk Bandaríkjanna, Ísrael, Kósóvó, Líbanon, Svartfjallaland og Norður-Makedóníu af listanum. Ákvörðunin er ekki bindandi fyrir aðildarríki sambandsins sem geta, hvert um sig ákveðið hvort þau vilji taka á móti ferðamönnum frá Bandaríkjunum.

Uppfært 14:45. AFP fréttastofan hefur staðfest fregnir þess efnis að Bandaríkin séu að opna á ferðalög bólusettra til Bandaríkjanna. Jeffrey Zients, ráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta í COVID-19 málefnum segir að nýju reglurnar taki gildi snemma í nóvember. Ferðatakmarkanir hafi verið í gildi í 18 mánuði og marki tímamót hjá forsetanum og bregðist við ríkri kröfu ESB þess efnis að aflétta ferðatakmörkunum þaðan. 

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV