Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir forgangsmál að halda viðvarandi lágu vaxtastigi

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að eitt forgangsatriða þeirra stjórnvalda sem taki við að loknum kosningum um næstu helgi verði að halda viðvarandi lágu vaxtastigi.

Halldór Benjamín var meðal viðmælenda í Silfrinu í dag. Þar sagði hann að Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri væri búinn að stíga fram og segja að ef hið opinbera dregur ekki úr umsvifum sínum eða eykur þau ekki frekar, þá bregðist Seðlabankinn við með vaxtahækkunum.

„Vaxtahækkun Seðlabankans í dag er allt önnur en vaxtahækkun Seðlabankans fyrir nokkurm árum. Nú er megnið af heimilum landsins komið með húsnæðislán sem eru á breytilegum vöxtum,“ sagði Halldór Benjamín. „Þetta mun hafa mjög snör áhrif inn í heimilisbókhald okkar allra um hver mánaðamót svo nokkrum mánuðum eða árum skiptir. Við sem hér sitjum ættum að geta verið sammála um það að eitt forgangsatriði í aðdraganda þessa kosninga er að tryggja að þau stjórnvöld sem taki hér við að loknum kosningum hafi þetta í huga að viðvarandi lægra vaxtastig eru almannagæði sem gagnast öllum heimilum, alveg sama hvað þau kjósa.“

Silfrið frá því í dag má sjá í myndbandinu hér að ofan.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV