Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mengaði heilann með ógeðslegum textum

Mynd: RÚV / RÚV

Mengaði heilann með ógeðslegum textum

19.09.2021 - 14:00

Höfundar

„Nú verður einhver brjálaður, en ætli hann sé ekki einhvers konar Nirvana fyrir mér,“ segir tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr Másson, eða Emmsjé Gauti, um rapp-goðsögnina Eminem. Að sögn var móðir hans ekki ýkja hrifin af tónlistarvali sonarins á uppvaxtarárunum sem innihélt oft og tíðum ofbeldisfulla texta.

Tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, segir frá uppvaxtarárum sínum og þeim fimm plötum sem hafa haft hvað mest áhrif á hann. Það eru plöturnar Slim Shady með Eminem, XXX Rottweilerhundar með samnefndri hljómsveit, Yeezus með Kanye West, 3 heimar með Bubba Morthens og Önnur Mósebók með Moses Hightower. Einnig ræðir hann um væntanlega plötu sína Mold.   

Vill vera í leikstjórasætinu 

„Ég áttaði mig á að ég fúnkeraði ekki í bandi,“ segir Gauti í samtali við Felix Bergsson í Fram og til baka á Rás 2. Hann byrjaði snemma að vinna í tónlist en áttaði sig fljótt á að hann þyrfti að ráða ferðinni sjálfur. „Ég var frekur, skilurðu?“ segir hann en bætir við að það sé eitthvað sem hann hafi þurft að læra að venja sig af. Þrátt fyrir það hefur Gauti aldrei gert neitt einn, öll hans verkefni hafa verið unnin í samstarfi við aðra listamenn en hann þarf að vera eigin herra og sitja í leikstjórasætinu.  

„Ég er góður í að púsla hlutum saman en er kannski ekki góður í forritinu, það er fólk sem er betra í hlutunum en ég veit hvernig á að setja þá saman,“ segir Gauti og bætir við að þannig verði maður oft pródúser í eigin verkefnum. „Mér finnst list líka bara snúast svolítið um það, mér finnst alltaf gaman að gera artwork með öðru fólki,“ segir hann og nefnir ljósmyndun, tónlistarmyndbönd og alls kyns varning. „Alls konar dót sem teygir sig út fyrir að vera tónlistarmaður, í alls konar áttir sem snertir mann.“ 

Lærði allt ógeðið utan að 

Gauti nefnir plöturnar Slim Shady og XXX Rottweilerhunda sem þær plötur sem hann féll fyrir. „Ég var alveg dolfallinn,“ segir hann um Slim Shady með Eminem. Hana heyrði Gauti fyrst 10 ára gamall í kjallaranum hjá frænda sínum í Vesturbænum. „Ég man hvar ég var staddur og hvernig útvarpstækin litu út.“  

Fyrir Gauta voru Eminem og Rottweilerhundar ógeðslega svalir, sérstaklega Eminem sem reif kjaft og sagði viðbjóðslega hluti sem yrðu ekki leyfðir í dag. „Mamma var ekkert rosa spennt fyrir því að ég væri að hlusta á þetta,“ segir Gauti. Á þessum tíma áttaði hann sig ekki endilega á samhenginu en platan hafði mikil áhrif á hann. „Nú verður einhver brjálaður, en ætli hann sé ekki einhvers konar Nirvana fyrir mér,“ segir hann um þetta reiða unglingatímabil. 

„Ég gæti nefnt nokkrar íslenskar rappplötur en þetta er svona platan og tímabilið sem setti einhvers konar fyrirmynd á að þetta er hægt á íslensku,“ segir Gauti um XXX Rottweilerhunda. Að vissu leyti hafi platan verið pönk vegna þess að þar var svo mikil tjáning sem stuðaði eldri kynslóðir. „Við erum að tala um að það voru Kastljóssþættir þar sem alþingismenn voru að reyna að láta banna Rottweiler.“ Og hvað er meira spennandi fyrir 13 ára strák en að hlusta á bannaða tónlist? Hann segist hafa lagt allt ógeðið af þessum plötum á minnið og mengað á sér heilann.  

„Ég er ekki að segja að þetta hafi verið góðar fyrirmyndir fyrir mig,“ segir Gauti en þessi tónlist varð til þess að hann fór að rappa sjálfur á íslensku. „Erpur segist alltaf vera pabbi okkar allra. Ég dýrka Erp, hann kenndi mér helling en ég get ekki haldið í við hann.“  

„Ég myndi gera þetta í öfuga átt í dag“ 

„Það var miklu minna hipp-hopp í Breiðholtinu en fólk myndi halda,“ segir Erpur en þangað flutti hann frá Akureyri 4 ára gamall. „Fólk vill alltaf fara að setja einhvern gettóstimpil á Breiðholtið og tengja þannig gettó og rapp saman,“ segir Gauti en að sögn var hverfið bara fínt. Það sé hægt að finna skilgreininguna á gettói hvar sem er.  

Skólaganga Gauta var ekki löng en hann kláraði eina önn í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti áður en hann gafst upp á námi. „Mig langaði meira að rappa heldur en að vera í skóla á þeim tíma. Ég mæli ekki með því samt,“ segir hann. Seinna lauk hann þó verknámi í grafískri miðlun og stúdentsprófi sem og að hafa byrjað í hljóðtækninámi. „Ég myndi gera þetta í öfuga átt í dag,“ segir hann, „fara í félagslífið og ekki missa af þessum árum.“  

Gauti byrjaði að vinna 15 ára gamall og flutti að heiman 17 ára, að sögn lá honum mikið á að fullorðnast. „Þegar ég horfi á þetta í dag hugsa ég bara: Chilliði, verið bara aðeins lengur hjá mömmu og pabba ef það er í boði,“ segir hann og bætir við að börnin hans muni í fyrsta lagi fá að flytja burt þegar þau verða þrítug.  

„Ef ég fæ gyllinæð þá er það bara út af Bubba Morthens“ 

Auk Eminem og Rottweilerhunda nefnir Gauti Kanye West, Bubba Morthens og Moses Hightower. Gauti segist virða Bubba Morthens mikið fyrir það hve óhræddur hann er við að prófa nýja hljóma. Að hans mati er Bubbi einn stærsti tónlistarmaður sem Ísland hefur átt, innanlands. „Kaleo er örugglega búið að selja fleiri plötur en við vitum alveg hver er kóngurinn,“ segir hann.  

Gauti segist taka bókina Bubbi Morthens: ferillinn í fjörutíu ár með sér á salernið og lesa eitt Bubba-tímabil í hvert sinn. „Ef ég fæ gyllinæð þá er það bara út af Bubba Morthens, þá hefur það verið of langt tímabil.“ Honum þykir það skemmtilegt viðmið að horfa á hve marga stíla Bubbi hefur prófað í gegnum tíðina. Að hans mati er platan 3 heimar hrein og bein hipp-hopp plata þó slíkt sé ekki almennt talið.  

„Ég hef unnið með honum, en hann veit ekki af því,“ segir Gauti en þeir sungu báðir inn á Trolls 2 myndina. „Hann var fönk tröll en ég var hipp-hopp tröll.“ Hann langi til að vinna með Bubba fái hann tækifæri til. „Ef það móment kemur þá finnur það sig, mig langar ekki heldur að þvinga því.“ 

Enginn nær að túlka þjáningu betur en Helgi  

Að lokum laumar Gauti eigin plötu með í umræðuna sem væntanleg er frá honum á næstunni. „Ég er shameless plug monster því þetta er plata með sjálfum mér.“ Platan ber heitið Mold og er unnin í samvinnu við Helga Sæmund Guðmundsson. 

Á ferli sínum hefur Gauti samið mikið af rappi ásamt að snerta á dægurlagatónlist en með þessari plötu leyfa þeir félagar sér að setja egóin til hliðar. Í dágóðan tíma hafði Gauti verið búinn að safna saman textum og öðru sem honum fannst ekki passa fyrir önnur verkefni. Svo árið 2019 missa þeir Helgi sameiginlegan vin og þá hringir Gauti í hann og segist vera með nokkra texta sem hann langi til að setja saman í plötu. „Það er enginn sem nær að túlka þjáningu betur en Helgi.“ Að sögn er bandið Úlfur Úlfur gott dæmi um rapp-tónlist sem er ekki rapp-tónlist og segir Gauti þá vera frumkvöðla í textagerð.  

„Eina vandamálið með Helga er að hann svarar aldrei á Facebook eða í síma,“ segir Gauti og eftir stutta samvinnu ákveður hann að bóka sumarbústað fyrir þá félagana. Gauti keyrði því til Skagafjarðar og náði í Helga. „Ég fór með hann upp í bústað og við gerðum plötuna á 10 dögum.“ 

Gauta þykir ótrúlega vænt um þessa plötu því hún er frábrugðin því sem hann hefur verið að gera. Að vísu má heyra í Emmsjé Gauta en þarna fá hlustendur að heyra meira frá Gauta Þey. Á Mold er aðallega að finna dægurlög að tveimur rapplögum undanskildum. „Þetta er kannski eitthvað sem gerist með aldrinum, maður missir hárið og byrjar að dýrka kassagítar.“ 

Rætt var við Emmsjé Gauta í Fram og til baka á Rás 2. Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér. 

Tengdar fréttir

Popptónlist

Alinn upp á malbiki

Menningarefni

„Bið alla dægurlagamenningu afsökunar“

Barátta við egóið og óttinn við að missa allt