Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gosið hefur við Fagradalsfjall í hálft ár

Mynd með færslu
 Mynd: Matthias Vogt - Volcano Heli
Í dag hefur gosið í Fagradalsfjalli í hálft ár. Þar er lítil virkni þessa stundina eftir líflega viku.

Í vikunni byrjaði púlsavirkni sem þá hafði ekki sést frá því í apríl og maí. Þá stígur óróinn upp og það byrjar að vella úr gígnum. 

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það virðist hafa lognast út af um sex leytið í gærkvöld. Glóð hafi sést í nótt en það hafi líklega verið hraun sem var að kólna en ekki að koma úr gígnum. 

Eldgosið hófst um klukkan korter í níu föstudagskvöldið 19. mars. Samkvæmt síðustu mælingu sem gerð var 9. september nær hraunið yfir 4,63 ferkílómetra og 142,7 milljónir rúmmetra af hrauni hafa komið upp.  Salóme segir að gera megi ráð fyrir að næsta mæling verði gerð fljótlega.  

Vefmyndavél RÚV við Langahrygg er biluð þessa stundina. Unnið er að viðgerð.