Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fara í saumana á samskiptum manna og dýra

Mynd: Gerðarsafn / Gerðarsafn

Fara í saumana á samskiptum manna og dýra

19.09.2021 - 10:00

Höfundar

„Við erum alltaf að reyna að taka manninn úr miðju heimsins,“ segja þau Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson en þetta myndlistartvíeyki heldur nú upp á tuttugu ára samstarf með sýningum, bæði í Kópavogi og brátt á Akureyri.

Um síðustu helgi var opnuð í Gerðarsafni Kópavogs sýningin Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum þar sem verk listamannatvíeykisins Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Marks Wilson eru til sýnis. Þau fagna um þessar mundir tuttugu ára stórmerkilegu samstarfi sínu. 

Rætt var við þau í Víðsjá á Rás 1 um norðurslóðir og samspil manns, dýra og náttúru sem hefur verið grundvöllur að listrannsóknum þeirra og verkum í tvo áratugi. 

„Við erum alltaf að reyna að afmiðjusetja manninn í náttúrunni,“ segir Mark. „Alltof lengi hefur maðurinn haft skaðleg áhrif, við gröfum upp og tökum og tökum og það er greinilega ekki að ganga upp. Við viljum spyrja hvernig fólk sjái fyrir sér að við getum hagað okkar menningu á annan hátt inn á sviði náttúrunnar. Við forðumst hins vegar að ræða þetta almennt en notum frekar nákvæmar dæmisögur innan úr þessum samskiptum manns og náttúru til að opna fyrir hvernig þetta getur verið með öðrum hætti.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gerðarsafn
Úr verkefni Bryndísar og Marks sem sneri að uppstoppuðum ísbjörnum á Bretlandseyjum.

Kemur menningin rétt að náttúrunni?

Verk þeirra Bryndísar og Marks eru gott dæmi um rannsóknar- og samfélagslist en verkefni þeirra taka oft langan tíma og yfirleitt er samspil manna og dýra í forgrunni. Þau skoða í verkum sínum málefni sem varða sögu, menningu og umhverfið á breiðum grundvelli og oftar en ekki á norðurslóðum. Mörg verkefna þeirra hafa orðið til í listamannadvölum á stöðum á borð við Norðurpólinn, Svalbarða, Alaska, Grænland og Ísland. 

„Við köllum þetta yfirlitssýningu því hér eru verk frá öllum þessum tíma sem við Mark höfum unnið saman,“ segir Bryndís. „Við fengum áhuga á að vinna með umhverfið og vildum bæði velta fyrir okkur hlutum sem eru í norðurhluta veraldarinnar. Út frá verkefni sem við unnum í Bretlandi upp úr aldamótum um uppstoppaða ísbirni sem þar leynast víða þá sáum við að margt var að breytast. Ísbirnir fóru snögglega frá því að vera eins konar tákn um hreina norðrið og hreysti þeirra sem þá skutu og yfir í að vera tákn um hnignun sem er að eiga sér stað í þessu umhverfi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gerðarsafn
Ísbjörninn og landganga hans verður til skoðunar á sýningu á Listasafninu á Akureyri frá 25. september.

Heimur sem breytist hratt

Verk þeirra Bryndísar og Marks vekja hugleiðingar og samtal um hvernig heimurinn er að breytast frammi fyrir augum okkar og við erum oft krafin svara við spurningum um hlutverk okkar mannfólksins í þeim breytingum.

Sýningin í Kópavogi er samstarfsverkefni við Listasafnið á Akureyri en þar verður opnuð 25. þessa mánaðar sýningin Visitasíur með verkum sem eru hluti af listrannsóknarverkefninu  Ísbirnir á villigötum sem unnið í samstarfi sérfræðinga á sviði myndlistar, þjóðfræði og náttúru- og umhverfisfræði. Eins og nafnið gefur til kynna þá sýnst það verkefni um hvernig þrengt er að ísbirninum þegar ísinn á norðurslóðum bráðnar. 

„Menningarlega, sögulega og pólitískt er norðrið svæði sem tekist er á um,“ segir Mark. „Við erum áhugasöm um þessa spennu, þessi átök. Við höfum til dæmis unnið í Alaska og í Kanada innan við norðurheimskautsbauginn á svæðum þar sem manneskjan deilir framkvæmdasvæðum sínum, í jarðgasvinnslu til dæmis, með ísbjörnum sem þrengt er að. Stundum skoðum við eitthvað í náttúrunni sem er að deyja út eða er nánast haldið í gjörgæslu með verndunarverkefnum um leið og sótt er að því annars staðar. Slík tvöfeldni í hegðun mannsins gagnvart náttúrunni heillar okkur. En við erum alls ekki alltaf þung á brún og brá í verkum okkar, í þeim er líka að finna húmor. Húmorinn er samt oft blandaður harmleik.“

Sýning Bryndísar og Marks í Gerðarsafni stendur fram í janúar á næsta ári. Allar upplýsingar um hana má finna hér. Sýningarstjóri er Becky Forsythe. Sýning þeirra í Listasafninu á Akureyri, Vísitasíur, verður opnuð 25. september næstkomandi en Æsa Sigurjónsdóttir mun sýningarstýra henni. Loks má kynna sér verk þeirra Bryndísar og Marks á heimasíðu þeirra.