Um síðustu helgi var opnuð í Gerðarsafni Kópavogs sýningin Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum þar sem verk listamannatvíeykisins Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Marks Wilson eru til sýnis. Þau fagna um þessar mundir tuttugu ára stórmerkilegu samstarfi sínu.
Rætt var við þau í Víðsjá á Rás 1 um norðurslóðir og samspil manns, dýra og náttúru sem hefur verið grundvöllur að listrannsóknum þeirra og verkum í tvo áratugi.
„Við erum alltaf að reyna að afmiðjusetja manninn í náttúrunni,“ segir Mark. „Alltof lengi hefur maðurinn haft skaðleg áhrif, við gröfum upp og tökum og tökum og það er greinilega ekki að ganga upp. Við viljum spyrja hvernig fólk sjái fyrir sér að við getum hagað okkar menningu á annan hátt inn á sviði náttúrunnar. Við forðumst hins vegar að ræða þetta almennt en notum frekar nákvæmar dæmisögur innan úr þessum samskiptum manns og náttúru til að opna fyrir hvernig þetta getur verið með öðrum hætti.“