Eldgos hafið á Kanaríeyjum

19.09.2021 - 15:18
Erlent · Hamfarir · kanaríeyjar · Spánn · Evrópa
Mynd: EPA-EFE / EFE
Eldgos er hafið í Rajada eldfjallinu sem er nærri bænum El Paso á eyjunni La Palma á Kanaríeyjum. Þórarinn Einarsson, sem er í fríi í bænum, hefur fylgst með gosinu. Hann segir að hættan virðist vera meiri af hugsanlegum skógareldum að svo stöddu en af hrauninu sjálfu.

Gosið hófst klukkan tólf mínútur yfir þrjú að staðartíma í eldfjallinu Rajada. Mikil sprenging varð áður en gosmökkur reis upp úr fjallinu.

Talsverð skjálftavirkni hafði verið í kringum fjallið frá 11. september. Eftir tvo rólega daga létu skjálftarnir aftur á sér kræla í morgun, sá stærsti þeirra 3,8 að stærð.

Ekki hefur gosið á eyjunni í fimmtíu ár, eða frá því Teneguia gaus árið 1971. Þar áður gaus úr þremur gosopum í Nambroque eldfjallinu árið 1949, en á undan því hafði ekki gosið á eyjunni síðan 1712.

Um 82 þúsund búa á eyjunni, þar af tæplega átta þúsund í El Paso.

Mynd með færslu
 Mynd: Google
Eldgosið er um það bil á þeim stað sem rauði punkturinn er á myndinni. La Palma er vestust Kanaríeyja, Gran Canaria er lengst í austur og Tenerife þar á milli.
Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV