Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ber engan kala til Íslands eftir 11 daga í einangrun

Farsóttarhúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík
 Mynd: Þór Ægisson
Bandarískur skattheimtumaður, sem fékk 6 daga ferð til Íslands í afmælisgjöf frá eiginkonu sinni, eyddi fríinu í einangrun á farsóttahúsi. „Þú máttir ekki opna hurðina og ef ég hefði farið hefði ég verið handtekinn.“ Hann segist ekki vera reiður út íslensk yfirvöld þrátt fyrir þessa meðferð . „Bandaríkjamenn myndu samt aldrei sætta sig við þetta. Íslendingar gera bara það sem þeir geta til að halda smitum niðri.“

Þetta kemur fram á Orlando Sentinal.

J.R Kroll, sem er skattheimtumaður í Seminole-sýslu, hlakkaði mikið til ferðarinnar sem hann fékk að gjöf frá eiginkonu sinni þegar hann varð fimmtugur.

Full tilhlökkunar lögðu hjónin af stað til Íslands þann 5. september.  Líkt og allir aðrir ferðamenn sem hingað koma framvísuðu þau bólusetningarvottorði og vottorði um neikvæða sýnatöku.

Daginn eftir komuna til Reykjavíkur fékk Kroll smá hita og kvef og  ákvað að bóka sýnatöku á Suðurlandsbrautinni gegnum covid.is. Nokkrum klukkustundum síðar fékk hann símtalið sem flestir Íslendingar vilja ekki fá,  frá rakningateymi almannavarna sem þýddi að sýnatakan var jákvæð.

Kroll var fluttur í farsóttahús þar sem honum var gert að vera í einangrun.  Eiginkona hans , sem var einnig skimuð fyrir kórónuveirunni, reyndist hins vegar ekki smituð. Hún var snögg að panta sér farmiða aftur til Bandaríkjanna enda óttaðist hún að hljóta sömu örlög og eiginmaðurinn. 

Kroll segist hafa varið dögunum  í að gera armbeygjur, leggja sig, fara á netið í símanum sínum eða mæna út um gluggann. Allar sjónvarpsstöðvar nema tvær voru nefnilega á íslensku. 

Hann kveðst hafa fengið þrjár kaldar máltíðir á dag. Og morgunmaturinn var alltaf sá sami; hunangsmelóna, harðsoðið egg, ristað brauð með sultu og smjöri og vínarbrauð. „Allur maturinn var kaldur. Ég hefði gefið aðra höndina fyrir örbylgjuofn og ég var orðinn býsna pirraður eftir fyrstu sjö dagana.“

Hann náði þó að halda ró sinni, ólíkt manninum í næsta herbergi. „Hann virtist hafa fengið sig fullsaddan af dvölinni því ég heyrði hann vera að brjóta eitthvað einn daginn.“

Kroll segist hafa verið frelsinu feginn þegar hann losnaði loks úr einangrun. Hann fór á næsta veitingastað og pantaði sér vel útilátinn morgunverð með pönnukökum, beikoni og kaffi. „Hann [morgunmaturinn] var stórkostlegur.“ Þaðan fór hann upp á flugvöll og flaug heim til Bandaríkjanna.

Hann segist ekki bera neinn kala til íslenskra yfirvalda og aðgerða þeirra þótt afmælisgjöfin frá eiginkonunni hafi orðið að 11 daga einangrun á farsóttahúsi. „Kerfið þeirra virkar. Þeim hefur tekist að halda sjúkrahúsinnlögnum niðri. En við gætum ekki gert þetta í Bandaríkjunum, fólk myndi ekki sætta sig við svona. Íslendingar eru að gera það sem þeir geta til að halda smittölum niðri.“

Eftir þessa lífsreynslu á Íslandi hefur Kroll-fjölskyldan ákveðið að bíða með frekari ferðalög. „Á meðan COVID er í gangi ætla ég ekki að fara neitt. Þetta var ótrúleg lífsreynsla.“

Fram kom á visir.is í vikunni að um 2.500 hefðu verið í einangrun á farsóttahúsi frá því að fyrsta slíka húsið var opnað í febrúar á síðasta ári. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV